Innlent

Gervigreind til bjargar tungumálum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Byrjað er að nota talgreini til að rita ræður alþingismanna í rauntíma en um er að ræða tilraunaverkefni sem Háskólinn í Reykjavík heldur utan um. Þá verður í náinni framtíð hægt að tala íslensku við forrit eins og Siri hjá Apple og Alexu hjá Amazon að sögn forstöðumanns Gervigreindarseturs Háskólans í Reykjavík.

Miklar framfarir eiga sér stað í máltækni þar sem gervigreind er notuð. Á gervigreindarhátíð í Háskóla Reykjavíkur í dag var kynnt margt af því helsta sem er í gangi. Alþingi er meðal þeirra stofnanna sem er byrjað að nýta sér talgreini fyrir ræður alþingismanna.

Jón Guðnason forstöðumaður Gervigreindarseturs Háskólans í Reykjavík og dósent við tækni-og verkfræðideild skólans segir að verkefnið hafi farið vel af stað.  

„Við erum  hjálpa Alþingi að setja ræðurnar á textaform þannig að það þarf ekki að hamra þær inn. Alþingi er þegar farið að innleiða þetta,“ segir Jón.  

Á hátíðinni komu sérfræðingar í máltækni frá Google, Amazon og Microsoft en fyrirtækin nota gervigreind í máltækni og eru mörg hver að safna gögnum um tungumál um allan heim. 

„Þegar þessi gögn eru komin þá er hægt að þróa þessa máltækni fyrir hvert og eitt tungumál sem þýðir það að tölvur eru farnar að geta unnið með tungumálið. Það er hægt að búa til gervigreind eða sýndarverur sem geta þá skilið fólk tungumáli hvers og eins.  Við getum þá vonandi talað íslensku við Siri hjá Apple, Alexu hjá Amazon og Google Home,“ segir Jón. 

Jón segir að þetta geti haft mikla þýðingu fyrir varðveislu og þróun tungumála en í framtíðinni verði hægt að nota  sitt eigið tungumál í heimi tækninnar. 

„Tungumál á ekki að vera fyrirstaða í heimi tækninnar í framtíðinni. Þú ættir t.d. að geta spurt Google á íslensku og fengið svör alls staðar að úr heiminum sem verða þýdd á rauntíma á íslensku. Þetta er tækni sem mun hafa verulega jákvæð áhrif á varðveislu tungumála um allan heim,“ segir Jón að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×