Innlent

Vegagerðin bætir ekki holutjón

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Í byrjun janúar sögðum við frá fjölda ökumanna sem sprengdu dekk á bíl sínum eftir að hafa ekið í holur á Suðurlandsvegi.
Í byrjun janúar sögðum við frá fjölda ökumanna sem sprengdu dekk á bíl sínum eftir að hafa ekið í holur á Suðurlandsvegi. VÍSIR/JÓHANNK
Sextán tilkynningar um tjón hafa borist Vegagerðinni eftir að ökumenn keyrðu í holur á Hellisheiðinni. Vegagerðin mun ekki bæta tjónið þar sem stofnunin vissi ekki af holunum fyrr en eftir á.

Í byrjun janúar sögðum við frá fjölda ökumanna sem sprengdu dekk á bíl sínum eftir að hafa ekið í holur á Suðurlandsvegi. Aðstæður voru erfiðar, rigning og þoka, og þurftu margir að keyra nokkra leið til að skipta um dekk. Bæði lögregla og Vegagerðin fengu fjölmargar tilkynningar vegna skemmda á veginum og var bráðabirgðaviðgerð gerð.

Nú hefur Vegagerðinni borist sextán tilkynningar um tjón á ökutæki eftir þessa holóttu ferð og hefur fréttastofa heimildir um tugþúsunda upp í hundrað þúsunda króna tjón. En Vegagerðin mun ekki bæta tjónið.

„Reglurnar eru þær að um leið og við vitum af holunni þá bætum við það tjón sem verður en ef við vitum ekki af holunni þá er þetta á ábyrgð vegfarandans,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Í dag fékk fréttastofa fregnir af nýjum holum efst við Kambana á austurleið og brunaði af stað til að skoða aðstæður en þá var nýbúið að fylla upp í holurnar. Vegagerðin fljót að bregðast við.

„Þetta eru erfiðar aðstæður. Eins og tíðarfarið er núna þá myndast holur, sérstaklega ef malbikið er ekki nógu gott. Þannig að það er erfitt að eiga við það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×