Sjávarflóðaviðvaranir eru enn í gildi vegna eldsumbrotanna á eldfjallaeyjunni Anak Krakatá og vara yfirvöld fólk við því að vera nálægt strandlengjunni. Talið er að gígur sem hrundi á háflóði á laugardag hafi hrundið af stað flóðbylgjunni sem olli hörmungum beggja vegna Sundasunds á milli Jövu og Súmötru.
Björgunarfólk hefur notað stórvirkar vinnuvélar, leitarhunda og sérstakar myndavélar til að finna lík í aur og braki. Fleiri lík finnast eftir því sem björgunarhóparnir komast á afskekktari svæði. Mikil úrkoma og lítið skyggni hafa tafið björgunar- og leitarstörf. Drónar hafa verið notaðir til þess að reyna að meta tjónið úr lofti, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að 150 manns sé enn saknað og að 16.000 manns séu á vergangi eftir hamfarnirnar.