Körfubolti

Milwaukee fyrst til að vinna Raptors tvisvar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Antetokounmpo í leiknum í nótt
Antetokounmpo í leiknum í nótt vísir/getty
Milwaukee Bucks vann Toronto Raptors 104-99 í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Bucks er þar með fyrsta liðið til þess að vinna Toronto tvisvar í vetur.

Malcolm Brogdon sagði liðið hafa spilað sinn besta leik í vetur í nótt, hann skoraði sjálfur 18 stig, þar af tvö mjög mikilvæg þriggja stiga skot.

Brogdon jafnaði leikinn í 97-97 fyrir utan þegar mínúta var eftir af leiknum, stal svo boltanum af Raptors og kom þeim yfir með öðrum þristi. Gríska undrið Giannis Antetokounmpo tróð tveimur af hans 19 stigum þegar 12 sekúndur voru eftir og Milwaukee fór með sigurinn.



Charlotte Hornets var yfir allan leikinn gegn New York Knicks og fór með þægilegan 119-107 sigur þar sem Kevin Knox jafnaði sinn besta leik í vetur fyrir Knicks með 26 stig.

Knox bætti við 15 fráköstum, sem er hans besta á ferlinum. Þetta er í fyrsta skipti síðan árið 1986 sem nýliði Knicks nær að minnsta kosti 25 stigum og 15 fráköstum, Patrick Ewing gerði það síðast.

Kemba Walker skoraði 25 stig fyrir Hornets og Jeremy Lamb bætti við 19. Lamb kom Hornets í 28 stiga forystu seint í þriðja leikhluta þegar munurinn varð sá mesti í leiknum. Þrátt fyrir 7-0 byrjun Knicks á fjórða leikhluta var sigur Hornets aldrei í hættu.



Úrslit næturinnar:

Detroit Pistons - New Orleans Pelicans 108-116

Toronto Raptors - Milwaukee Bucks 99-104

San Antonio Spurs - Utah Jazz 110-97

New York Knicks - Charlotte Hornets 107-119

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×