Fyrrverandi yfirmaður nígeríska hersins var skotinn til bana í árás fyrir utan höfuðborgina Abuja í gær. Árásin þykir skýrt merki um versnandi stöðu öryggismála í landinu.
Alex Badeh var skotinn til bana þar sem ráðist var á bíl sem hann var farþegi í. Ekki liggur fyrir hver eða hverjir bera ábyrgð á árásinni eða um ástæður hennar.
Badeh var yfirmaður nígeríska hersins í valdatíð Goodluck Jonathan forseta, en var vikið úr embætti árið 2015. Eftir að hann lét af embætti hefur hann þurft að sæta rannsókn vegna gruns um spillingu í embættistíð sinni.
Nígería er fjölmennasta land Afríku og glímir við fjölda vandamála. Vígamenn úr röðum hryðjuverkasamtakanna Boko Haram hafa herjað á íbúa í norðausturhluta landsins, spilling er umfangsmikil í stjórnkerfinu og ítrekað hefur komið til átaka milli hirðingja og bænda í landinu miðju. Þá hafa mannránum fjölgað mikið á síðustu misserum.
Muhammadu Buhari tók við embætti forseta Nígeríu árið 2015 og hefur sætt gagnrýni fyrir að hafa mistekist að ná tökum á bágri stöðu öryggismála í landinu.
Kosningar fara fram í landinu í febrúar næstkomandi.
Fyrrverandi yfirmaður hersins drepinn í árás

Tengdar fréttir

Forseti Nígeríu neitar því að hafa dáið og að tvífari hafi komið í staðinn
Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, neitar því að hann hafi dáið og að tvífari hans hafi tekið við af honum sem Buhari sjálfur.

Forseti Nígeríu sækist eftir endurkjöri
Forsetakosningar fara fram í Nígeríu í febrúar á næsta ári.