Handbolti

Svíarnir áfram í milliriðil eftir spennutrylli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Svíarnir töpuðu naumlega fyrir Dönum í fyrstu umferðinni.
Svíarnir töpuðu naumlega fyrir Dönum í fyrstu umferðinni. mynd/ehf
Svíar mörðu eins marks sigur á Pólverjum, 23-22, er liðin mættust á EM kvenna í handbolta en spilað er í Frakklandi. Slóvenía vann óvæntan sigur á Rússum, 29-27.

Svíarnir voru með tögl og haldir á leiknum í fyrri hálfleik. Pólverjarnir skoruðu einungis fimm mörk í fyrri hálfleik og Svíar voru 10-5 eftir fyrri hálfleikinn.

Pólverjarnir komu sér inn í leikinn og jöfnuðu metin er tæpar þrjár mínútur voru eftir en Jamina Roberts skoraði sigurmarkið er rúmar tvær mínútru voru eftir. 23-22 sigur Svíaa.

Markaskorið dreifðist vel hjá Svíum en alls komust ellefu leikmenn á blað. Markahæstar voru Nathalie Hagman og Hanna Blomstrand með fjögur mörk en hjá Pólverjum skoraði Kinga Grzyb ellefu mörk.

Eftir sigurinn eru Svíarnir því komnir í milliriðilinn en þrjú lið fara áfram í hverjum riðli. Pólverjarnir sitja eftir með sárt ennið og eru á leið heim.

Slóvenía nældi í sín fyrstu tvö stig á mótinu með tveggja marka sigri á Rússum, 29-27, sem voru fyrir leikinn með fullt hús stiga. Staðan var jöfn í hálfleik, 13-13.

Slóvenar fara þrátt fyrir sigurinn ekki upp úr riðlinum því þær hafa verri innbyrðisviðureignir á Svartfjallaland og Frakkland sem mætast síðar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×