Innlent

Helmingsafsláttur landsbyggðarbúa væntanlegur árið 2020

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Samgönguráðherra segir að landsbyggðarbúar eigi fyrst von á 50% niðurgreiðslu á flugfargjöldum sínum árið 2020, líkt og útlistað er í nýrri skýrslu starfshóps samgönguráðherra. Þá gæti kostnaður við þennan lið áætlunarinnar hlaupið á einum milljarði króna.

Mun ódýrara verður fyrir íbúa landsbyggðarinnar að fljúga innanlands á næstu árum verði tillögur starfshópsins um eflingu innanlandsflugs að veruleika. Greint var frá því í dag að lagt væri til að þeir sem búa í 200-300 kílómetra akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu fái 50% af flugfargjöldum sínum til og frá svæðinu í einkaerindum niðurgreidd.

Niðurgreiðslan nái að hámarki til fjögurra ferða fram og til baka á hvern einstakling á meðan reynsla kemst á kerfið.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sagði aðspurður í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hann teldi mjög líklegt að tillögurnar um niðurgreiðslu nái fram að ganga.

„Við stefnum á að þessi tillaga gæti orðið að veruleika á árinu 2020. Tillaga nefndarinnar er í þá veru og nú fer þetta inn í umhverfis- og samgöngunefnd og verður hluti af samgönguáætluninni sem verður lokið við í næstu viku.“

Þá sé erfitt að segja til um hver kostnaðurinn við niðurgreiðslurnar verði.

„Þegar að fyrstu drög voru kynnt þá töldu menn að þetta gæti kostað sex, sjö hundruð, átta hundruð milljónir. Ef allir sextíu þúsund nýta sér þetta að hámarki held ég að kostnaðurinn væri einn og hálfur milljarður,“ sagði Sigurður Ingi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×