Innlent

Ríkið dæmt skaðabótaskylt gagnvart útgerðum vegna makrílsveiða

Kjartan Kjartansson skrifar
Heimaey VE er eitt skipanna sem Ísfélag Vestmannaeyja taldi að hefði átt að fá frekari heimildir til að veiða makríl.
Heimaey VE er eitt skipanna sem Ísfélag Vestmannaeyja taldi að hefði átt að fá frekari heimildir til að veiða makríl. Fréttablaðið/Eyþór
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið bæri skaðabótaskyldu á fjártjóni sem útgerðarfélögin Hugin og Ísfélag Vestmannaeyja telja sig hafa orðið fyrir vegna úthlutunar á aflaheimildum á makríl frá 2011 til 2014. Dómurinn sneri sýknudómi héraðsdóms við í málum þeirra beggja.

Útgerðirnar kröfðust þess að skaðabótaskylda ríkisins væri viðurkennd á því að skip þeirra hefðu fengið minni aflaheimildum úthlutað en skylt var samkvæmt lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands á fyrrnefndu tímabili. Um sjö skip Ísfélagsins og tvö skip Hugins var að ræða.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi ríkinu í vil í báðum málum í maí í fyrra. Hæstiréttur sneri þeim dómum við í dag og taldi að sjávarútvegráðherra hafi verið skylt að taka tillit til veiðireynslu útgerðanna þegar hann ákvað heimildir til makrílveiða.

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte mat samanlagðan hagnaðarmissi félaganna á rúma 2,6 milljarða króna, þar af var missir Ísfélagsins talinn um 2,3 milljarðar. Útgerðirnar þurfa að höfða sérstakt skaðabótamál á hendur ríkinu til þess að fá tjón sitt bætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×