Tæplega 17.00 mótmælendur voru handteknir í mótmælum gulvestunga í Frakklandi í gær og 1.220 manns eru enn í haldi lögreglu. Þetta var fjórði laugardagurinn í röð sem mótmælin eru haldin en gærdagurinn einkenndist af hörðum átökum óeirðarlögreglu og mótmælenda.Vísir/AP
Tæplega 1.700 mótmælendur voru handteknir í mótmælum gulvestunga í Frakklandi í gær og 1.220 manns eru enn í haldi lögreglu. Þetta var fjórði laugardagurinn í röð sem mótmælin eru haldin en gærdagurinn einkenndist af hörðum átökum óeirðarlögreglu og mótmælenda.
Í upphafi beindu mótmælendur, sem kenna sig við gul öryggisvesti sem þeir klæðast, spjótum sínum fyrst og fremst að Emmanuel Macron Frakklandsforseta og hækkuðum álögum á eldsneyti en síðan þá hafa kröfurnar breyst og þróast út í almenna óánægju með efnahagsstefnu ríkisstjórnar Macrons og þá hafa fleiri bæst í hópinn.
Hátt í tvö þúsund manns voru handteknir í óeirðunum í gær.Vísir/APÓeirðir brutust út í nokkrum borgum í Frakklandi eins og Marseille, Bordeaux, Lyon og Toulouse en það var Parísarborg sem varð verst úti í óeirðunum en Anne Hidalgo borgarstjóri Parísar segir að skemmdarverkin hefðu verið mun meiri í gær en síðustu laugardaga.
Mótmælendur hrópuðu í sífellu „Macron, segðu af þér“ á Champs-Elysees breiðgötunni í París en forsetinn er sagður hafa í hyggju að ávarpa mótmælendur á næstu dögum.
Borgaryfirvöld ákváðu að girða af helstu ferðamannastaði borgarinnar til að koma í veg fyrir tjón.Vísir/apHidalgo borgarstjóri Parísar segir að margir veitingahúsa-og verslunareigendur hefðu orðið fyrir barðinu á óeirðarseggjum en hundruð verslana í borginni var skellt í lás og lokaðar með flekum. Þá ákváðu borgaryfirvöld að girða af helstu ferðamannastaði borgarinnar.
Mótmælendurnir eru flestir íbúar á landsbyggðinni sem telja að Frakklandsforseti sé „fulltrúi borgarelítunnar“ og ekki í tengslum við almenning.
Fjöldamótmæli síðustu þriggja helga bæta gráu ofan á svart hjá Frakklandsforseta. Mótmælin snúast í auknum mæli um hann sjálfan. 69 prósent Frakka lýsa sig andvíg forseta sínum og stjórnarandstæðingar segja Macron ekki skilja reiðina.
Mótmælendur sem kalla sig Gulu vestin ætla að halda áfram að mótmæla ríkisstjórn Emmanuels Macron jafnvel þó að hann hafi lúffað fyrir þeim með skatta á eldsneyti í vikunni.