Erlent

Þarf að margfalda aðgerðir í loftslagsmálum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þessi er ekki hrifinn af aðgerðarleysi í loftslagsmálum.
Þessi er ekki hrifinn af aðgerðarleysi í loftslagsmálum. Nordicphotos/Getty
Nauðsynlegt er að fimmfalda aðgerðir í loftslagsmálum til þess að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5 gráða og þrefalda til þess að halda henni innan tveggja gráða. Þetta kom fram í skýrslu sem Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) sendi frá sér í gær. Aukinheldur kom fram að útblástur hafi aukist í fyrra eftir að hafa staðið í stað þrjú ár þar á undan.

Parísarsamkomulagið gengur út á að hlýnun verði haldið innan tveggja gráða, sé miðað við hitastig eins og það var fyrir iðnvæðingu, og er ljóst að erfitt verkefni er fyrir höndum.

UNEP fjallar um svokallað útblástursbil (e. emissions gap), sem er bilið á milli þess útblásturs gróðurhúsalofttegunda sem talið er að verði árið 2030 og þess sem nauðsynlegt er að útblástur verði til þess að takmarka hlýnun við 1,5 eða tvær gráður. Samkvæmt skýrslunni er enn vel mögulegt að ná tveggja gráða markmiðinu en sífellt ólíklegra verður að ná að brúa útblástursbilið svo hlýnun verði takmörkuð við 1,5 gráður.

Upplýsingaskrifstofa SÞ fyrir Vestur-Evrópu fjallaði um skýrsluna í pistli á vefsvæði sínu í gær. Þar var vitnað í Joyce Msuya, varaforstjóra UNEP, sem sagði að metnaðarfullar aðgerðir væru ekki að skila sínu. „Ríkisstjórnir verða að grípa til skjótari og brýnni aðgerða. Við erum að hella olíu á eldinn þótt slökkviefni sé innan seilingar.“

„Það eru þrjár til fimm milljónir ára frá því að samþjöppun koltvísýrings í andrúmslofti jarðar var jafn mikil og nú og þá var hitinn 2-3°C meiri og yfirborð sjávar 10-20 metrum hærra en nú,“ var haft eftir Petteri Taalas, framkvæmdastjóra Veðurfræðistofnunar SÞ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×