Viðskipti innlent

Óþreyju gætir meðal leigusala WOW air

Hörður Ingi Ægisson og Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Ekki liggur fyrir hvort verði af yfirtöku Icelandair á WOW air. Kaupin eru háð fjölmörgum skilyrðum, svo sem samþykki hluthafafundar Icelandair og Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.
Ekki liggur fyrir hvort verði af yfirtöku Icelandair á WOW air. Kaupin eru háð fjölmörgum skilyrðum, svo sem samþykki hluthafafundar Icelandair og Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar. Fréttablaðið/Ernir
Enn eru mörg stór mál óleyst í viðræðum Icelandair Group og WOW air sem leysa þarf úr til þess að yfirtaka fyrrnefnda félagsins á því síðarnefnda gangi eftir, samkvæmt heimildum Markaðarins. Auk þess að fá samþykki hluthafafundar Icelandair og Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu í áreiðanleikakönnun þurfa forsvarsmenn flugfélaganna að leita lausna í hinum ýmsu deilumálum sem út af standa.

Þannig hefur ekki enn fengist niðurstaða í það á samningafundum stjórnenda félaganna hvort krafa Icelandair um að forgangsréttarákvæði í samningum félagsins við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) muni ekki gilda hjá lággjaldaflugfélaginu í kjölfar kaupanna nái þau fram að ganga.

Félagsmenn í FÍA sem starfa hjá Icelandair hafa forgang í flugi á flugvélum í eigu félagsins og dótturfélaga. Með kaupum Icelandair á WOW air yrðu því flugmenn síðarnefnda félagsins, að öðru óbreyttu, á sama kjarasamningi og flugmenn Icelandair. Myndi þannig launakostnaður lággjaldaflugfélagsins hækka umtalsvert.



Icelandair greiði 90 prósent

Þá herma heimildir Markaðarins að mikil óvissa sé um þau áform að greiða eigendum skuldabréfa WOW air höfuðstól bréfa sinna á gjalddaga, eftir þrjú ár, auk þóknunar sem nemur 20 prósentum af höfuðstólnum gegn því að kaupréttir þeirra í félaginu verði felldir niður. Í bréfi WOW air til skuldabréfaeigendanna, dagsettu 9. nóvember, kom fram að það væri skilyrði þess að yfirtaka Icelandair Group á félaginu nái fram að ganga að kaupréttirnir falli niður.

Viðmælandi Markaðarins, sem þekkir vel til stöðu mála, segir að gert hafi verið ráð fyrir að Icelandair standi undir 90 prósentum af greiðslunni og Skúli Mogensen, forstjóri og eini eigandi WOW air, greiði það sem upp á vantar með þeim hlutabréfum sem hann kann að eignast í sameinuðu félagi. Niðurstaða áreiðanleikakönnunar mun leiða í ljós hve stór hlutur það verður en hann getur rokkað á bilinu 1,8 til 6,6 prósent.

Í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér í gærmorgun kom fram að í kjölfar hluthafafundar sem boðaður er vegna kaupanna á WOW air á föstudag yrðu kynntar aðgerðir til þess að styrkja efnahagsreikning félagsins enn frekar. Um leið yrði lögð fram tillaga að breytingum á skilmálum bréfanna sem miðaði að því að ná fram „langtímalausn“ fyrir félagið og skuldabréfaeigendurna.



Skoðað sölu lendingarstæða

Eins og Skúli rekur í bréfi sem hann skrifaði eigendum skuldabréfa flugfélagsins í gær hafa ýmsir þættir í rekstri og umhverfi félagsins þróast til verri vegar undanfarið sem hafi gert það að verkum að félagið þurfi nauðsynlega á fjármögnun að halda. Er það einkum bráður lausafjárvandi sem félagið hefur glímt við.

Vaxandi óþreyju gætir á meðal eigenda flugvéla sem eru í rekstri WOW air. Óttast leigusalarnir, sem eru aðallega félög sem sérhæfa sig í fjármögnun og útleigu flugvéla, að samruni flugfélagsins og Icelandair gangi ekki eftir og að WOW air takist ekki að standa í skilum um næstu mánaðamót – eftir að félagið hefur greitt starfsfólki sínu laun – með greiðslu afborgana. Eru leigusalarnir sagðir tilbúnir til að grípa til aðgerða ef það verður raunin, samkvæmt heimildum Markaðarins. Skúli tiltók sérstaklega í bréfinu til skuldabréfaeigenda að umræddir leigusalar (e. lessors) fylgdust náið með stöðu félagsins og krefðust nú strangari greiðsluskilmála en áður með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á sjóðstreymi félagsins.

Í bréfinu greindi Skúli einnig frá því að flugfélagið hefði verið nálægt því að ganga frá samningi um sölu og endurleigu á flugvélum sem hefði tryggt félaginu innspýtingu upp á 25 milljónir dala, jafnvirði um þriggja milljarða króna. Hins vegar hefði verið hætt við þau áform.

Flugfélagið leitar um þessar mundir allra leiða til þess að bæta lausafjárstöðu sína og kannar í því sambandi ýmsa kosti. Samkvæmt heimildum blaðsins hefur félagið meðal annars skoðað þann möguleika að selja lendingarstæði sín á Gatwick-flugvellinum í nágrenni Lundúna. Eru stæðin með þeim verðmætustu í eigu WOW air en ekki liggur þó fyrir hvað félagið getur fengið fyrir þau.



Gæti þýtt 3 prósenta samdrátt

Eins og greint var frá í Markaðinum í síðasta mánuði gæti gjaldþrot WOW air þýtt að landsframleiðsla drægist saman um tvö til þrjú prósent og gengi krónunnar veiktist um allt að 13 prósent á næsta ári samkvæmt sviðsmyndagreiningu sem stjórnvöld unnu í lok sumars vegna mögulegra áfalla í rekstri flugfélagsins.

Í grunnsviðsmynd greiningarinnar var gert ráð fyrir því að fall WOW air gæti leitt til þess að útflutningur drægist saman um tíu prósent á næsta ári, verðbólga hækkaði á sama ári um þrjú prósentustig og um 1.400 manns bættust á atvinnuleysisskrá.



Eftirlitið skoðar hvort sölutilraunir séu fullreyndar

Ummæli Skúla Mogensen, forstjóra og eina eiganda WOW air, um að forsvarsmenn flugfélagsins eigi í viðræðum við aðra fjárfesta en Icelandair Group um mögulega aðkomu að félaginu gætu dregið dilk á eftir sér. Þannig munu ummælin, sem komu fram í tölvupósti sem Skúli skrifaði starfsmönnum WOW air á mánudag, torvelda Icelandair og WOW air að sannfæra Samkeppniseftirlitið um að heimila beri kaupin á grundvelli reglunnar um félag á fallanda fæti.

Til þess að samkeppnisyfirvöld fallist á að beita reglunni þurfa félögin að sýna fram á, svo hafið sé yfir allan vafa, að engir raunhæfir möguleikar hafi verið á annarri sölu WOW air en til Icelandair Group.

Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur Samkeppniseftirlitið nú til skoðunar hvort tilraunir til þess að selja WOW air til annarra en Icelandair Group hafi verið fullreyndar. Á fundum fulltrúa flugfélaganna með Samkeppniseftirlitinu í lok síðustu viku gerði eftirlitið athugasemdir við málatilbúnað félaganna að þessu leyti, eftir því sem blaðið kemst næst, en ein athugasemdin sneri að því að Skúli hefði aldrei sett WOW air í formlegt söluferli.


Tengdar fréttir

Viðskipti með bréf í Icelandair stöðvuð

Kauphöllin hefur stöðvað öll viðskipti með bréf í flugfélaginu Icelandair. Hvorki er hægt að kaupa né selja bréf í flugfélaginu af þeim sökum.

Skúli lagði 770 milljónir til WOW

Fimm og hálf milljón evra, af þeim 60 sem WOW Air tryggði sér með skuldabréfaútboði flugfélagsins í september, kom úr vasa forstjórans.

Óvissa um kaup Icelandair á WOW air

Töluverð óvissa er hvort verður af kaupum Icelandair á WOW air en forstjóri WOW hefur lýst yfir að fleiri en Icelandair komi til greina sem kaupendur að félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×