Sunneva er sjötti gestur Einkalífsins en í þáttunum er rætt við fólk sem skarar fram úr á sínu sviði. Sunneva er gríðarlega fyrirferðamikil á Instagram og á Snapchat (sunnevaeinars).
„Ég kannski áttaði mig á því fyrir svona einu ári, þegar viðskiptatækifærin fóru að koma inn, að ég væri að gera eitthvað rétt á þessum miðlum,“ segir Sunneva en hennar leyndarmál er góð lýsing og gæði í myndum.
Hún segist taka mjög margar myndir af sér og svo er kannski einn til tvær góðar birtingahæfar.
Sunneva segist vita að hún sé töluvert mikið á milli tannanna á fólki.

„Ég átti að hafa verið rekinn úr vinnunni minni sem var alls ekki rétt. Það var enginn að spyrja mig persónulega út í þetta, bara allir að spyrja alla í kringum mig.“
Sunneva segir að það taki vissulega mikið á andlega að vera svona áberandi á samfélagsmiðlum.
„Það tekur á þegar það koma sögur um mann og maður á sína góðu og slæmu daga, en ég reyni að láta þetta ekki hafa áhrif á mig.“
Í þættinum ræðir Sunneva einnig um þegar hún hitti söngkonuna Jennifer Lopez, kvíðann sem fylgir því að vera svona stór persóna á samfélagsmiðlum hér á landi, um duldar auglýsingar og framtíðina á sviði samfélagsmiðla en Sunneva er í námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.
Hér að neðan má sjá sjötta þáttinn af Einkalífinu en þátturinn vikulegi er í loftinu á fimmtudögum á Vísi.