Körfubolti

Úr næstbestu deildinni í Lúxemborg og inn í besta lið NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfonzo McKinnie.
Alfonzo McKinnie. Vísir/Getty
Alfonzo McKinnie er ein af óvæntustu stjörnunum í NBA-deildinni í byrjun tímabilsins en hann hefur komið skemmtilega inn í lið NBA-meistara Golden State Warriors.

Það er ekki auðvelt að komast í þetta frábæra lið Golden State Warriors en Alfonzo McKinnie tókst það eftir að hafa unnið fyrir sínu sæti í æfingabúðum fyrir tímabilið.

Alfonzo McKinnie er svo sannarlega að upplifa körfuboltadrauminn því fyrir aðeins tæpum þremur árum síðan þá var þessi skemmtilegi leikmaður að spila með einu lélegasta liðinu í næstbestu deildinni í Lúxemborg.

Það eru ekki margir sem hafa komist svo hratt upp á toppinn á svo skömmum tíma en því náði Alfonzo McKinnie. New York Times fjallar um ævintýri þessa 26 ára gamla stráks sem fæddist í Chicago árið 1992.





Vorið 2016 fylgdist Alfonzo McKinnie með Golden State Warriors spila í úrslitakeppnini en þá var hann á samningi hjá liði í Mexíkó þar sem hluti samningsins var 40 prósent afsláttur á sportbar.

„Ég horfði á alla leiki og át örugglega allt sem var á matseðlinum,“ sagði Alfonzo McKinnie í léttum tón í viðtalinu.

Alfonzo McKinnie sló fyrst fyrir alvöru í gegn með Golden State í sigri á Chicago Bulls eða í sama leik og Klay Thompson setti met í þriggja stiga körfum. McKinnie endaði með 19 stig og 10 fráköst í leiknum.

McKinnie er 203 sentímetra framherji sem er góður íþróttamaður og hörku skytta. Hann hefur þannig skorað yfir einn þrist í leik í vetur og nýtt 60 prósent skota sinna fyrir utan þriggja stiga línuna.

Alfonzo McKinnie er með 6,8 stig og 4,1 frákast á 14,7 mínútum í leik með Golden State Warriors í NBA í vetur. Tölur hans eru hinsvegar á uppleið því hann er með 11,0 stig og 6,0 fráköst að mðaltali í síðustu fimm leikjum.

Það verður fróðlegt að sjá hvort Alfonzo McKinnie fái áfram að spila þetta hlutverk hjá hinu frábæra liði Golden State Warriors.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×