Erlent

Dómstólar greiða ríkisstjórn Trump tvö þung högg

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump skrifaði undir tilskipun um Keystone XL-olíuleiðsluna þegar á öðrum degi sínum í embætti forseta.
Trump skrifaði undir tilskipun um Keystone XL-olíuleiðsluna þegar á öðrum degi sínum í embætti forseta. Vísir/EPA
Tveir alríkisdómarar gerðu ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta afturreka með tvö umdeild mál sem hafa verið ofarlega á baugi undanfarin ár. Annar þeirra staðfesti lögbann við því að DACA-áætlunin sem ver börn fólks sem kom ólöglega til Bandaríkjanna fyrir því að vera vísað úr landi yrði felld úr gildi en hinn setti tímabundið lögbann á framkvæmdir við stóra og umdeilda olíuleiðslu.

Trump tilkynnti að hann ætlaði að afnema DACA-áætlunina sem forveri hans Barack Obama setti á fót í september í fyrra. Neðri dómstig settu hins vegar lögbann á það og skipaði ríkisstjórninni að halda áfram að taka við umsóknum um vernd þar til málið yrði til lykta leitt fyrir dómstólum.

Níundi áfrýjunardómstóll Bandaríkjanna kvað upp úrskurð í gær um að DACA yrði að halda áfram að vera í gildi þar sem líkur væru á því að stefnendur sem halda því fram að afnám áætlunarinnar sé ólöglegt komi til með að vinna málið, að því er segir í frétt CNN.

Dómsmálaráðuneytið hefur þegar beðið Hæstarétt um að taka málið fyrir. Þar eru íhaldsmenn nú með öruggan meirihluta eftir að Trump skipaði Brett Kavanaugh dómara í haust.

Verða að rannsaka neikvæð áhrif olíuleiðslunnar

Alríkisdómstóll í Montana lagði síðan tímabundið lögbann við framkvæmdir við Keystone XL-olíuleiðsluna. Ríkisstjórn Trump hafi ekki réttlætt nægilega ákvörðun sína um að gefa leyfi fyrir leiðslunni.

Keystone XL á að flytja hráolíu sem unnin er úr tjörusandi í Kanada til olíuhreinsistöðva í Texas, tæplega tvö þúsund kílómetra leið.

Eitt fyrsta verk Trump sem forseta var að gefa út forsetatilskipun um að snúa við stefnu Obama um að setja framkvæmdirnar á ís vegna umhverfissjónarmiða.

Washington Post segir að úrskurður dómarans stöðvi framkvæmdirnar ekki varanlega. Ríkisstjórnin þarf nú hins vegar að meta nánar möguleg neikvæð áhrif leiðslunnar, þar á meðal fyrir loftslagsbreytingar, dýr í útrýmingarhættu og menningararf.

Hópar norður-amerískra frumbyggja eru á meðal þeirra sem hafa barist hvað harðast gegn Keystone XL en leiðslan á meðal annars að liggja um jarðir þeirra.


Tengdar fréttir

Obama hafnar Keystone XL olíuleiðslunni

Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að hann myndi hafna beiðni um lagningu Keystone XL olíuleiðslunnar frá Alberta í Kanada til Nebraska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×