Innlent

Hyggst leggja fram frumvarp vegna lögbanns á deilisíður

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Þingmaður Pírata segir dómstóla ekki skilja internetið en Hæstiréttur staðfesti í vikunni lögbann á deilisíður. Hann segir dóminn vonda framfylgni á slæmri útfærslu á höfundaréttarlögum og hyggst leggja fram frumvarp á Alþingi um málið.

Í vikunni staðfesti Hæstiréttur lögbann sem lagt var á aðgang að deilisíðum, en sýslumaðurinn í Reykjavík lagði lögbannið að kröfu Sambands tónskálda og eigenda flutningsrétta (STEF) árið 2015. Hér er um að ræða síður á borð við deildu.net, Piratebay og aðrar síður þar sem höfundaréttarvörðu efni er deilt. Píratinn Helgi Hrafn er gagnrýninn á dóminn.

„Það sem að er vont við þennan dóm er að hann felur það ekki í sér að vefsíðurnar eru teknar niður sem slíkar. Það geta verið lögmætar ástæður til að taka niður vefi þar sem þeir eru hýstir en það sem er vont við þennan dóm er að milliliðurinn, netveitan, er gerð ábyrg fyrir því að vefurinn sé einhvers staðar á internetinu,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.

Hann segir niðurstöðu dómsins byggja á því að dómstólar skilji ekki internetið auk skilningsleysi löggjafans.

„Ég fullyrði það hiklaust að dómstólar skilja ekki undirliggjandi tækni og hvaða áhrif þetta hefur á gangverk internetsins. Það er ekki hægt að gera milliliðinn ábyrgan nema með því að láta hann brjóta í bága við þá staðla og þær vinnuaðferðir sem eiga að gilda um veitingu internets. Vandinn er ekki bara skilningsleysi hæstaréttar þó það sé vissulega hluti af vandanum heldur líka skilningsleysi löggjafans, þetta er bara vond löggjöf sem þarf að breyta. Þetta er dæmi um Vonda framfylgni á vondri útfærslu á höfundarétterlögum,“ segir Helgi Hrafn.

Helgi Hrafn hyggst leggja fram frumvarp á Alþingi vegna málsins.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×