Körfubolti

LeBron enn í leit að sínum fyrsta sigri með Lakers

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Brekka
Brekka vísir/getty
Níu leikir voru á dagskrá NBA deildarinnar í nótt þar sem aðalfjörið var í Staples Center í Los Angeles en LeBron James og félagar í LA Lakers eru án sigurs eftir þrjá leiki.

Það stóð ansi tæpt í nótt því Lakers tapaði með minnsta mun fyrir San Antonio Spurs eftir framlengdan leik, 142-143. LeBron sýndi snilli sína þegar hann kom leiknum í framlengingu með þriggja stiga körfu á lokasekúndum venjulegs leiktíma en reyndist svo skúrkurinn á lokasekúndunum framlengingarinnar þegar Lakers kastaði frá sér sigrinum.

Þar klúðraði kappinn meðal annars tveimur vítaskotum sem hefðu getað farið langt með að tryggja Lakers sinn fyrsta sigur. LeBron var næststigahæstur í liði Lakers með 32 stig auk þess að gefa 14 stoðsendingar en Kyle Kuzma var stigahæstur með 37 stig.

DeMar Derozan skilaði nákvæmlega sömu línu og LeBron, 32 stig, 8 fráköst og 14 stoðsendingar en LaMarcus Aldridge var stighahæstur hjá Spurs með 37 stig. 

Það var sömuleiðis dramatík í Portland þar sem Portland Trail Blazers tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu gegn Washington Wizards. Þar var einnig framlengt og vann Wizards að lokum með minnsta mun, 124-125. 

Meistarar Golden State Warriors komust aftur á sigurbraut með öruggum sigri á Phoenix Suns og í Austurdeildinni eru Toronto Raptors og Milwaukee Bucks enn taplausir. Boston Celtics tapaði hins vegar á heimavelli fyrir Orlando Magic.

Úrslit næturinnar

Boston Celtics 90-93 Orlando Magic

Toronto Raptors 127-106 Charlotte Hornets

Milwaukee Bucks 124-113 New York Knicks

Minnesota Timberwolves 101-91 Indiana Pacers

Dallas Mavericks 115-109 Chicago Bulls

Utah Jazz 84-92 Memphis Grizzlies

Portland Trail Blazers 124-125 Washington Wizards

Golden State Warriors 123-103 Phoenix Suns

Los Angeles Lakers 142-143 San Antonio Spurs

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×