Innlent

Prófessor í bótarétti fékk ekki bætur úr málskostnaðartryggingu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Eiríkur Jónsson lagaprófessor.
Eiríkur Jónsson lagaprófessor. Fréttablaðið/Eyþór
Eiríkur Jónsson, prófessor í skaðabótarétti við Háskóla Íslands, átti ekki rétt á greiðslu bóta úr málskostnaðartryggingu fjölskyldutryggingar sinnar vegna máls sem hann hefur höfðað gegn íslenska ríkinu. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum (ÚRVá).

Eiríkur var í hópi fimmtán umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt sem metnir voru hæfastir til starfsins en ekki í hópi þeirra sem dómsmálaráðherra lagði til að yrðu skipaðir. Hefur hann höfðað mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna fjártjóns af ákvörðun ráðherra en ríkið hefur nú þegar fallist á miskabótaskyldu. Aðalmeðferð í málinu var fyrir tæpum sex vikum og er dóms beðið.

Áður en málið var höfðað taldi Eiríkur að hann ætti rétt á greiðslu úr málskostnaðartryggingu sinni en vátryggingafélag hans hafnaði bótaskyldu þar sem málshöfðunin tengdist atvinnu hans. Slík mál væru undanskilin gildissviði tryggingarinnar.

Eiríkur, sem er höfundur að fræðiriti um vátryggingarétt, sagði á móti að fyrirhugað dómsmál snerist ekki um starfskjör hans. Málið væri byggt á sakarreglunni og mismunareglu skaðabótaréttins en tekjur hans sem landsréttardómari væru hærri en þær tekjur sem hann hefur sem prófessor við Háskóla Íslands.

ÚRVá taldi að málið snerist um fjártjón vegna framtíðartekjutaps og slíkur ágreiningur væri í skýrum tengslum við atvinnu Eiríks. Orðalag vátryggingarskilmálanna yrði ekki skilið svo að það næði aðeins til ágreinings vátryggðs og þess vinnuveitanda sem hann starfar hjá. Því var ekki fallist á bótaskyldu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×