Körfubolti

Meistararnir hófu titilvörnina á sigri

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Durant og George voru öflugir.
Durant og George voru öflugir. vísir/getty
NBA-deildin fór aftur af stað í nótt með tveimur stórleikjum þar sem stórliðin í austrinu og vestrinu létu ljós sitt skína.

Meistarar Golden State Warriors fengu meistarahringana sína fyrir leikinn gegn Oklahoma City í nótt og spiluðu síðan eins og meistarar.





Warriors var með gott forskot í hálfleik en missti það niður. Meistararnir náðu svo fullum völdum á leiknum í fjórða leikhluta og hófu leiktíðina á sigri.  Stephen Curry með 32 stig og Kevin Durant 27.

Það var enginn Russell Westbrook í liði Thunder en hann er enn að jafna sig eftir hnéaðgerð. Andre Roberson líka meiddur og spilar ekki fyrr en í desember. Paul George bestur í liði Thunder með 27 stig.





Boston valtaði svo yfir Philadelphia þar sem Jayson Tatum var stigahæstur í þeirra liði með 23 stig og Marcus Morris kom næstur með 16.

Joel Embiid skástur í liði 76ers með 23 stig og Ben Simmons bætti við 19 stigum og 15 fráköstum.





Úrslit:

Golden State-Oklahoma City  108-100

Boston-Philadelphia  105-87

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×