Íslenska liðið er í mjög erfiðum málum í Þjóðadeildinni eftir tvö slæm töp á móti Sviss og Belgíu í fyrstu tveimur umferðum riðlakeppninnar og því ekki útilokað að Hamrén hristi aðeins upp í hlutunum í dag.
Hann fær þó aftur nokkra af bestu mönnum liðsins eins og Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason sem hvorugur voru með í síðustu leikjum. Spurningamerki er þó með fyrirliðann Aron Einar Gunnarsson sem meiddist aftur á dögunum.

Yngstur í Meistaradeild
Mesta eftirvæntingin í dag snýr að ungum strákum á borð við Albert Guðmundsson, Arnór Sigurðsson og Jón Dag Þorsteinsson en Albert, sem hefur byrjað vel með sínu nýja félagi AZ Alkmaar, var ekki í hópnum síðast þrátt fyrir að hafa farið með liðinu á HM.Arnór Sigurðsson hefur skotist upp á stjörnuhiminninn nánast á einni nóttu en þessi 19 ára gamli strákur varð yngsti Íslendingurinn til að spila Meistaradeildarleik á dögunum þegar að hann kom inn á í leik á móti Viktoria Plzen.
Hann gerði svo enn betur og kom inn á í sigurleik á móti Evrópumeisturum Real Madrid á þriðjudagskvöldið, nánast sléttum tveimur árum eftir að hann spilaði sinn síðasta leik í Pepsi-deildinni sem varamaður.

Skoraði á móti FCK
Jón Dagur Þorsteinsson tók skrefið frá Fulham til Vendyssel í dönsku úrvalsdeildinni til að fá að spila en þessi tvítugi uppaldi HK-ingur skoraði á dögunum beint úr aukaspyrnu á móti stórliði FCK í óvæntum sigri sinna manna.Einnig verður áhugavert í dag að sjá hvort Hamrén haldi áfram að velja Kolbein Sigþórsson sem að fær ekki mínútu með Nantes og virðist sem svo að hann muni ekki spila félagsliðafótbolta fyrr en á næsta ári þrátt fyrir að vera heill heilsu í fyrsta sinn í tvö ár.
Hópurinn verður tilkynntur á blaðamannafundi KSÍ sem hefst klukkan 13.15 en Vísir verður með beina útsendingu frá fundinum í dag.
Jón Dagur Þorsteinsson (@jondagur) scored a beauty for @VendsysselFF when they won @FCKobenhavn at home 2-1. Very important 3 points and brilliant game from Jón Dagur who´s born 1998 and is on loan from @FulhamFC. #TeamTotalFootballpic.twitter.com/OVQWfQqH9U
— Total Football (@totalfl) September 30, 2018