FH-ingar voru verulega ósáttir með rauða spjaldið sem Lennon fékk en Birkir Sigurðarson, aðstoðardómari eitt í leiknum, sagði Einari Inga Jóhannssyni að gefa Skotanum rautt. Enginn vissi af hverju en nú er hægt að sjá það.
Hafnafjarðarliðið var með eigið tökulið á hliðarlínunni sem að náði öllum látunum en FH er búið að birta æsinginn á Facebook-síðu sinni og texta hluta af látunum.
„Þú hlýtur að vera að djóka maður. Hann skutlar sér niður,“ segir reiður aðstoðarþjálfari FH, Ásmundur Guðni Haraldsson en dæmd var aukaspyrna á Lennon fyrir að brjóta á Jörgen Richardsen, bakverði Víkings.
Þá heyrist í Birki kalla á Einar dómara nokkrum sinnum. „Einar, Einar, Einar Ingi. Brottvísun á Lennon núna,“ segir aðstoðardómarinn. Atli Viðar Björnsson stendur ofan í atvikinu og trúir ekki eigin augum.
„Hann slær í áttina að mér og segir you're a fucking joke tvisvar,“ segir Birkir við Einar Inga sem byrjar á því að gefa Atla Viðari rautt en rekur svo Skotann út af.
FH-ingar héldu svo áfram að láta Birki heyra það en dómnum var ekki breytt og verður Lennon því í banni.