Erlent

Útiloka ekki að Bretland verði áfram í Evrópusambandinu eftir allt saman

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Keir Starmer, talsmaður Verkamannafloksins í málefnum tengdum Brexit.
Keir Starmer, talsmaður Verkamannafloksins í málefnum tengdum Brexit. https://www.keirstarmer.com/parliament/
Lófatakið ætlaði enga enda að taka eftir að þingmaður breska Verkamannaflokksins lýsti því yfir á flokksþingi í morgun að enginn gæti lengur útilokað þann möguleika að Bretland yrði um kyrrt í Evrópusambandinu eftir allt saman. Önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um málið væri nú í kortunum.

Þingmaðurinn Keir Starmer var fyrstur til að ávarpa flokksþingið í morgun og var hann ómyrkur í máli. Starmer er talsmaður Verkamannaflokksins í svokölluðum Brexit málum, eða málum sem varða útgöngu Breta úr Evrópusambandinu í mars næstkomandi.

Sagðist hann fastlega gera ráð fyrir að þingmenn flokksins fái boð að ofan frá flokksforystunni um að hafna þeim leiðum sem Theresa May forsætisráðherra hefur kosið að fara í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Hennar forsendur séu brostnar og allt samningaferlið í uppnámi.

Það er opinber stefna Verkamannaflokksins að reyna að fella ríkisstjórnina og krefjast kosninga fyrir mars ef ekkert samkomulag næst. Róttækustu andstæðingar Brexit innan flokksins hafa sett saman ályktun sem hefur nú verið lögð fyrir flokksþingið. Þar er möguleikanum á nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu haldið opnum en skoðanakannanir sýna að töluverður fjöldi kjósenda hefur skipt um skoðun og vill nú vera áfram í Evrópusambandinu vegna þeirra vandræða sem hafa fylgt samningaviðræðunum og viðvörunum fjölda hagfræðinga sem sjá blikur á lofti.

Nýlega þurfti ríkisstjórnin að lýsa því yfir að framboð matvæla yrði viðunandi eftir útgönguna úr ESB, þrátt fyrir aðvaranir sérfræðinga um að skortur verði á sumum tegundum matvæla. Það þótti ekki sérlega traustvekjandi fyrir framhaldið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×