Fótbolti Breiðablik er í dauðafæri til að vinna Íslandsmeistaratitilinn í sautjánda sinn eftir 3-0 sigur á Þór/KA í uppgjöri tveggja efstu liða Pepsi-deildar kvenna á laugardaginn. Blikar eru nú með fimm stiga forskot á norðanstúlkur þegar tvær umferðir eru eftir.
Þór/KA vann fyrri leikinn gegn Breiðabliki í sumar sem og báða deildarleiki liðanna í fyrra. Blikar náðu hins vegar fram hefndum á laugardaginn og sigur þeirra var á endanum öruggur.
Fyrsta markið kom á 33. mínútu. Alexandra Jóhannsdóttir skallaði þá boltann í netið eftir fyrirgjöf Ástu Eirar Árnadóttur frá hægri. Gestirnir frá Akureyri vildu fá vítaspyrnu á 66. mínútu þegar boltinn fór í hönd Guðrúnar Arnardóttur en Bríet Bragadóttir dæmdi ekki neitt.Lítil hamingja var með það á varamannabekk Þórs/KA og aðstoðarþjálfarinn Andri Hjörvar Albertsson var rekinn upp í stúku fyrir mótmæli í annað skiptið í sumar.
Þegar tvær mínútur voru til leiksloka skoraði Alexandra sitt annað mark eftir sendingu varamannsins Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur. Skömmu síðar fékk Bianca Sierra, varnarmaður Þórs/KA, sitt annað gula spjald og þar með rautt. Í uppbótartíma skoraði Agla María Albertsdóttir svo þriðja mark Blika og gulltryggði sigur þeirra. Breiðablik hefur unnið alla átta heimaleiki sína í Pepsi-deildinni með markatölunni 21-2.
Ef Breiðablik vinnur Selfoss í næstu umferð verður liðið meistari, hvernig sem leikur Þórs/KA og Vals á sama tíma fer. Þór/KA verður að vinna Val og treysta á að Selfoss taki stig af Breiðabliki til að eiga möguleika á að verja Íslandsmeistaratitilinn í lokaumferðinni.
Nýliðarnir Selfoss og HK/Víkingur gerðu 1-1 jafntefli á laugardaginn. Unnur Dóra Bergsdóttir kom Selfyssingum yfir á 32. mínútu en Kader Hancer jafnaði eftir tæplega klukkutíma leik.
Bæði lið eru með 17 stig og örugg með sæti sitt í Pepsi-deildinni. Þetta er í fyrsta sinn sem HK/Víkingur heldur sæti sínu í efstu deild. Í fyrri tvö skiptin sem liðið kom upp féll það strax aftur.
Þá vann ÍBV 1-2 útisigur á Grindavík. Eyjakonur, sem eru ósigraðar í síðustu fjórum leikjum, eru í 5. sæti deildarinnar. Staða Grindvíkinga er hins vegar erfið. Þær eru með tíu stig í níunda og næstneðsta sæti, þremur stigum á eftir KR-ingum sem eru í 8. sæti. Þá er markatala KR mun betri. Það verður því að teljast líklegast að Grindavík fylgi FH niður í Inkasso-deildina.
Níu fingur komnir á bikarinn
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
![Leikmenn Breiðabliks fagna sigrinum á Þór/KA. Blikar eru einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum.](https://www.visir.is/i/BDA834651B803258CEE157BBC226AEBEAD5B2043549B95097C950CF696C8BFDA_713x0.jpg)
Mest lesið
![](/i/3EFE4F81F8975075705F6F93D2F509FCC9D3D642B1DE150DD17AEC04CA6F9D00_240x160.jpg)
![](/i/133C3601E5C74FF6333128F9EF539181FCD7E99EFD45227273C9DEAAB14DF0F8_240x160.jpg)
Staðfestir brottför Danijels sem spilar ekki á fimmtudag
Íslenski boltinn
![](/i/E976FDE3719E2C6E5F489CDF7DC31ECD5CE462DD89DF8F55E3F0C6121501488F_240x160.jpg)
![](/i/68228F134835AB1634600EB6EC4187CBC09FA945E9333079430AE2480B9B34BB_240x160.jpg)
Arnór laus úr prísund Blackburn
Enski boltinn
![](/i/DFC7AE6395901FF640421332DC8DF2282EF46555097533B97A64FBF6C6ED4BF0_240x160.jpg)
![](/i/DB37EF76B8F47B24E5AEA21EB1956E9C0A0D3E5EA01A09E1112B264C34F794FA_240x160.jpg)
Gleymdi að gefa konunni gjöf á Valentínusardaginn
Enski boltinn
![](/i/BFBF6D07E7E7D9C86F1EEB041DCC8E27783F1A24C7D9D2DD4FED77AC8452434F_240x160.jpg)
![](/i/22F68B0FEB4C32059E7D044C0AEB9BD5BA3DA051210331146D52C56EF76ACD71_240x160.jpg)
![](/i/EAC46F161CF72CBC58BFFCDC1ABFB7C06F573810331FCD6A78EB85958C50A0FF_240x160.jpg)
![](/i/DCB9AC6957FF122EA316A5266F6B0A7364C9D022DCFA5C892A9534A42AE3B916_240x160.jpg)