Erlent

Kínverjar reiðir út í Taívan vegna njósna

Samúel Karl Ólason skrifar
Kínverjar fljúga herþotum sínum reglulega að Taívan.
Kínverjar fljúga herþotum sínum reglulega að Taívan. Vísir/EPA
Yfirvöld Kína vöruðu í morgun leyniþjónustur Taívan við áframhaldandi njósnaaðgerðum í Kína. Kínverjar sökuðu njósnara Taívan um að reyna að stela upplýsingum, „skemmdarverk“ og að grafa undan samskiptum ríkjanna.

Kínverjar segja kínverska nemendur í Taívan verða fórnarlömb njósnara og þeim sé lofað öllu fögru fyrir upplýsingar og jafnvel sé reynt að breyta þeim í njósnara fyrir Taívan. Kínverjar hafa hins vegar að undanförnu lagt mikið púður í að reyna að fá íbúa Taívan til að flytja til meginlands Kína.

Kínverjar hafa gert tilkall til Taívans allt frá árinu 1949 þegar leiðtogar lýðveldissinna í Kína flúðu þangað undan kommúnistum og stofnuðu þar ríki, sem þeir kölluðu, og kalla raunar enn, Lýðveldið Kína. Afar grunnt hefur verið á því góða á milli ríkjanna allar götur síðan.

Núverandi ríkisstjórn Taívan er hliðholl því að lýsa formlega yfir sjálfstæði.

Ríkin skiptast reglulega á ásökunum um njósnir og Kínverjar fljúga sprengjuvélum reglulega í kringum Taívan. Þá var kínverskur námsmaður dæmdur í fangelsi í Taívan í fyrra fyrir njósnir.

Þar að auki hafa Kínverjar fengið stóran hluta þeirra fáu ríkja sem viðurkenna tilvist Taívan formlega til að láta af samskiptum sínum við eyríkið. Samkvæmt heimildum Reuters á á Taívan þó í virku varnarsamstarfi við marga aðila á svæðinu og veita þeir bandamönnum sínum upplýsingar um þróun og störf kínverska hersins.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×