Haukar og ÍR gerðu jafntefli á Ásvöllum í kvöld. Leikur liðanna var hluti 20. umferðar Inkasso deildar karla.
Gestirnir úr Breiðholtinu komust yfir á 6. mínútu þegar Axel Sigurðarson skoraði eftir hornspyrnu.
Fleiri voru mörkin ekki í fyrri hálfleik og þrátt fyrir að bæði lið hafi fengið meira en nóg af færum til þess að skora þá kom jöfnunarmarkið ekki fyrr en á 85. mínútu.
Brotið var á Frans Sigurðssyni í teignum og vítaspyrna dæmd, Gunnar Gunnarsson fyrirliði fór á punktinn og skoraði af öryggi. Lokatölur 1-1.
Stigið kemur sér verr fyrir ÍR-inga sem eru í mikilli fallbaráttu. Haukar eru svo gott sem öruggir með áframhaldandi sæti í Inkasso deildinni, en ekki alveg þó þegar tvær umferðir eru eftir.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
