Innflytjendamálin hafa verið fyrirferðarmikil í aðdraganda kosninga í Svíþjóð en Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, hefur sakað ríkisstjórnina um að hafa forgangsraðað þörfum innflytjenda á kostnað innfæddra Svía á síðasta kjörtímabili.
Búist er við verulegri fylgisaukningu Svíþjóðardemókrata ef miðað er við nýjustu skoðanakannanir. Í síðustu þingkosningum fékk flokkurinn um 13% atkvæða en nú mælist hann með um 18% þeirra. Fylgisaukningin er mikil ógn gagnvart núverandi ríkisstjórn en búist er við fylgistapi Sósíaldemókrata, með forsætisráðherrann Stefan Lofven í broddi fylkingar, en flokkurinn mælist í skoðanakönnunum með um 25% atkvæða.
Það gæti reynst flókið að mynda ríkisstjórn að loknum kosningum en búist er við spennandi kosninganótt. Um 20% Svía eftir að gera upp hug sinn og gætu úrslitin því orðið óvænt.

Reiður sænska ríkisútvarpinu
Åkesson hefur farið mikinn um innflytjendamál en framganga hans í sænska kosningasjónvarpinu varð mikið hitamál í gær. Umsjónarmanni kosningasjónvarpsins þótti formaður Svíþjóðardemókrata ganga yfir strikið gagnvart innflytjendum á föstudaginn og gerði honum það ljóst að slíkt yrði ekki liðið.Útspil Åkessons í framhaldinu olli miklu fjaðrafoki því hann lýsti því yfir að hann hygðist sniðganga sænska ríkisútvarpið fram yfir kosningar. Umsjónarmanni kosningasjónvarpsins var síðan skipt út fyrir annan starfsmann eftir uppákomuna.