Erlent

Leki kom á Alþjóðlegu geimstöðina

Kjartan Kjartansson skrifar
Útsýnið frá Alþjóðlegu geimstöðinni á mynd sem þýski geimfarinn Alexander Gerst tók nýlega.
Útsýnið frá Alþjóðlegu geimstöðinni á mynd sem þýski geimfarinn Alexander Gerst tók nýlega. ESA/NASA-A.Gerst
Áhöfn Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á braut um jörðina vinnur nú að viðgerðum eftir að hægur súrefnisleki greindist um borð í gærkvöldi. Sex geimfarar eru um borð í geimstöðinni en þeir eru sagðir hafa nægt loft um borð sem endist þeim í nokkrar vikur.

Í frétt á vef Evrópsku geimstofnunarinnar (ESA) kemur fram að leiðangursstjórn geimstöðvarinnar hafi uppgötvað þrýstingsfall í gærkvöldi. Það hafi þó verið afar lítið og því hafi áhöfninni verið leyft að sofa áfram.

Svo virðist sem að leki hafi komið á Soyuz-geimfar sem liggur við festar við rússneska hluta geimstöðvarinnar. Geimfararnir vinna nú að því að koma í veg fyrir lekann. Space.com hefur eftir rússneskum fjölmiðlum að lekinn hafi komið af völdum lítillar sprungu sem virðist hafa myndast við árekstur við geimörðu, rykagnir í geimnum.

Þrír bandarískir, tveir rússneskir og einn þýskur geimfari er um borð í geimstöðinni. Soyuz-geimfarið flutti þau Serenu Auñón-Chancellor, Sergei Prokópjév og Alexander Gerst til geimstöðvarinnar í júní. Það á að koma þeim heim til jarðar í desember. Dmitrí Rogozin, forstjóri rússnesku geimstofnunarinnar Roscosmos, segir að geimfararnir geti gert við farið með tækjum um borð í geimstöðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×