Grínistinn Louis C. K. kom óvænt fram á Comedy Cellar, rótgrónum uppistandsklúbb í New York-borg, á sunnudagskvöld. Þetta er í fyrsta sinn sem grínistinn kemur fram opinberlega síðan hann játaði í fyrra að hafa áreitt fjölda kvenna kynferðislega.
Eigandi Comedy Cellar, Noam Dworman, staðfesti fregnir af uppistandi C.K. í gær. Bandaríska dagblaðið New York Times hefur eftir Dworman að uppistandið hafi staðið yfir í um 15 mínútur og að umfjöllunarefnið hafi verið „dæmigert fyrir Louis C.K.“.
Þá sagði Dworman að áhorfendur, sem voru um 115 talsins, hefðu tekið vel á móti C.K. er hann steig á svið. Ein kvörtun hefur borist vegna uppistandsins, sem var ekki auglýst fyrirfram.
Fimm konur stigu fram í nóvember síðastliðnum og sökuðu C.K. um að hafa áreitt sig kynferðislega. Sneri áreitnin að því að C.K. hafi ítrekað afklætt sig fyrir framan konurnar og í einhverjum tilvikum stundað sjálfsfróun fyrir framan þær, án samþykkis.
C.K. staðfesti sannleiksgildi ásakananna í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér nokkrum dögum síðar og játaði á sig verknaðinn. Hann baðst einnig afsökunar á gjörðum sínum. C.K. hefur farið nær alveg huldu höfði í Hollywood síðan ásakanirnar voru bornar á hendur honum, þar til nú.