Vladímír Pútín Rússlandsforseti hvetur Evrópuþjóðir til að taka höndum saman um að reisa sýrlenskt samfélag úr rústum.
Nauðsynlegt sé að fjármagna enduruppbyggingu innviða Sýrlands til að flóttamenn geti snúið aftur til síns heima.
Ekki sé hægt að búast við að flóttamenn snúi aftur heim þegar ekkert rennandi vatn eða heilsugæsla sé á þeirra gömlu heimaslóðum.
Ummælin lét hann falla þegar hann var á leið til fundar með Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Meseberg höllinni norður af Berlín.
Pútín benti á að fyrir utan þá flóttamenn sem hafi komist til Evrópu séu fimm milljónir sýrlenskra flóttamanna í grannríkjunum Jórdaníu, Líbanon og Tyrklandi.

