Thelma Lind Kristjánsdóttir, kringlukastari úr ÍR, bætti í gær 36 ára gamalt Íslandsmet er hún kastaði kringlunni 54,69 metra á móti í Borgarnesi.
Metið átti Guðrún Ingólfsdóttir árið 1982 og Thelma var eðlilega mjög ánægð er hún hitti Arnar Björnsson og ræddi við hann í dag.
„Já, ég var búinn að stefna að þessu í allt sumar og var mitt aðalmarkmið að ná þessu Íslandsmeti. Í gær voru fullkomnar aðstæður; hiti og smá gola. Þetta small allt saman og það kom risakast,” sagði Thelma himinlifandi.
Metið var orðið ansi gamalt eða 36 ára. Thelma sló á létta strengi.
„Ég er bara 21 árs og þetta met er 36 ára gamalt. Ég var ekki einu sinni orðin hugmynd!”
Hún á enn séns á að koma sér inn á HM og þarf að bæta sig um tæpa tvo metra til þess. Hún hefur trú, eðlilega, á sjálfum sér.
„Það er bara tæpur einn og hálfur meter í það. Ég á nokkur mót í viðbót í sumar. Ef þetta smellur allt saman þá getur það gerst.”
Sló 36 ára gamalt met: „Var ekki einu sinni orðin hugmynd þegar það var sett“
Tengdar fréttir

Sló 36 ára gamalt Íslandsmet
Kringlukastarinn Thelma Lind Kristjánsdóttir úr ÍR bætti í gærkvöld 36 ára gamalt Íslandsmet í greininni. Hún kastaði tæpum metra lengra en gamla metið.