Erlent

Fimmtíu látnir í skógareldum í Grikklandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flestir hinna látnu höfðu verið í bænum Mati þegar eldarnir brutust út.
Flestir hinna látnu höfðu verið í bænum Mati þegar eldarnir brutust út. Vísir/getty
Hið minnsta 50 eru látnir í miklum skógareldum sem nú geisa í Grikklandi. Um er að ræða umfangsmestu skógarelda í landinu í rúman áratug. Grísk stjórnvöld hafa kallað eftir aðstoð alþjóðasamfélagsins til að ráða niðurlögum þeirra.

Hundruð slökkviliðsmanna vinna allan sólarhringinn við slökkvistörf og fregnir hafa borist af fólki sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín nærri höfuðborginni, Aþenu.

Þá hafa björgunarsveitir verið ræstar út til að leita að hópi ferðamanna sem reyndi að komast undan eldunum á bát. Ekkert hefur spurst til hópsins síðan í gær.

Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, segir að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að takast á við vandann. Hann stytti opinbera heimsókn sína til Bosníu og flaug aftur heim til Grikklands til að fylgjast betur með gangi slökkvistarfsins - sem stjórnvöld segja að sé gríðarlega krefjandi.

Flestir hinna látnu voru í bænum Mati, sem er í um 40 kílómetra fjarlægð frá Aþenu. Lík fólksins fundust í bílum og á heimilum þeirra. Alls hafa rúmlegar 100 manns særst, þar af 11 lífshættulega, en í hópi hinna særðu eru 16 börn.

Gríðarlegir skógareldar hafa einnig geisað í Svíþjóð síðustu daga og vikur. Þangað hafa verið sendir hundruð alþjóðlegra slökkviliðsmanna. Grikkir vona að nágrannaþjóðir þeirra bregðist við hjálparbeiðni þeirra, rétt eins og Evrópa gerði í tilfelli Svía.


Tengdar fréttir

Skógareldar um alla Svíþjóð

Skeytingarleysi, hitabylgja og þurrkar valda umfangsmiklum skógareldum sem geisa um nærri gjörvalla Svíþjóð. Ástandið þykir einna verst í Dölunum, Jämtlands- og Gävleborgarlénum. Ítalskar vélar börðust við elda í gær en Svíar biðja um meiri hjálp. Frakkar svara kallinu og senda tvær flugvélar til Svíþjóðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×