Fótbolti

Dejan Lovren í einstökum HM-klúbbi með Thierry Henry

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dejan Lovren gengur fyrir sínu liði í leikmannagöngunum í gær.
Dejan Lovren gengur fyrir sínu liði í leikmannagöngunum í gær. Vísir/Getty
Dejan Lovren er kominn í mjög fámennan klúbb leikmanna úr ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Í raun eru í þessum klúbb aðeins hann og svo ein mesta goðsögn enska fótboltans síðustu áratugi.

Dejan Lovren er miðvörður Liverpool og króatíska landsliðsins og mun spila tvo stærstu fótboltaleiki ársins 2018.

Lovren fór með Liverpool-liðinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor og spilar úrslitaleikinn á HM með króatíska landsliðinu á sunnudaginn kemur. Liverpool tapaði á móti Real Madrid í úrslitaleiknum eftir tvö skelfileg mistök markvarðar síns.

Dejan Lovren gaf allt í leikinn og lagði meðal annars upp mark Liverpool í 3-1 tapi. Króatinn vann hug og hjörtu margra stuðningsmanna Liverpool með frammistöðu sinni enda skildi hann hreinlega allt eftir á vellinum.





Aðeins einn annar leikmaður hefur náð því á sama ári að spila úrslitaleik Meistaradeildarinnar með ensku félagi og svo úrslitaleik HM sama ár.

Sá hinn sami er Frakkinn Thierry Henry sem náði þessu með Arsenal og franska landsliðinu árið 2006. Henry tapaði reyndar báðum úrslitaleikjunum, 2-1 með Arsenal á móti Barcelona á Stade de France og svo í vítakeppni með Frökkum á móti Ítölum á Ólympíuleikvanginum í Berlín.

Dejan Lovren var mjög ánægður með sig eftir sigur Króata á enska landsliðinu í gærkvöldi og sagði mönnum meðal að hætta gagnrýna sig og fara að viðurkenna að hann einn besti varnarmaður heims.

Það bendir samt margt til þess að Dejan Lovren þurfi að upplifa það sama og Thierry Henry fyrir tólf árum síðan sem er að vinna tvö silfur með innan við tveggja mánaða milli í tveimur stærstu fótboltaleikjum ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×