Hitinn í hafnarborginni Quriyat í Óman á austanverðum Arabíuskaga fór aldrei undir 42,6°C á þriðjudag í síðustu viku. Líklegt er talið að það sé hæsti lágmarkshiti á sólahring sem mælst hefur á jörðinni. Hæst fór hitinn í 49,8°C síðdegis.
Alls varði þessi þrúgandi hiti í Quriyat í 51 klukkustund. Lágmarkshitinn var rúmri hálfri gráðu yfir fyrra meti sem einnig var sett í Óman árið 2011. Metið er þó ekki staðfest og Alþjóðaveðurfræðistofnunin heldur ekki utan um met yfir lágmarkshita. Hámarkshitinn nú var aðeins lægri en hæsti hiti sem mælst hefur í landinu og sá mesti sem mælst hefur í júní, að sögn Washington Post.
Orsök hitabylgjunnar er sögð sterkt háþrýstisvæði í háloftunum yfir svæðinu. Það hafi flutt með sér óvenjuhlýtt loft. Sjávarhiti undan ströndinni var einnig hár, um 32°C. Hann kom í veg fyrir að hitinn félli í borginni yfir nóttina.
Stutt er síðan öflugasti fellibylur sem gengið hefur á land á Arabíuskaga frá því að mælingar hófust skall á Óman. Fellibylurinn Mekunu var af stærðinni þrír og olli mannskaða og eyðileggingu í Óman og víðar.
Met líklega slegið þegar hitinn fór ekki undir 42 gráður

Tengdar fréttir

Hlýnun sögð breyta Barentshafi í anga Atlantshafsins
Hvarf hafíssins veldur því að aðstæður í norðanverður Barentshafi líkjast nú Atlantshafinu meir en dæmigerðu íshafi.

Fjögur hundruð mánuðir í röð hlýrri en meðaltalið
Níu af tíu hlýjustu aprílmánuðum sem hafa mælst hafa allir átt sér stað frá árinu 2005.