„Þetta er skrýtin tilfinning, ég er svo glöð...ég er bara svo stolt að vera að þessu einmitt núna,“ sagði Majdooleen al-Ateeq, 23 ára íbúi Riyadh, sem ók um á svörtum Lexus þegar hún ræddi við fréttamenn Reuters.
Bannið hefur sætt harðri gagnrýni vestrænna ríkja í gegnum tíðina og var meðal annars líkt við ógnarstjórn talibana í Afganistan.
Enn eru þó fáar konur með bílpróf í Sádí-Arabíu. Þær sem eru með próf erlendis byrjuðu að öðlast réttindi heima fyrir fyrr í þessum mánuði en aðrar afla sér ökuréttinda í nýjum ríkisreknum ökuskóla. Búist er við því að um þrjár milljónir kvenna verði akandi fyrir árið 2020.