Nokkrir leikmenn íslenska landsliðsins skemmtu sér saman ásamt sínum nánustu í gær. Hópurinn fékk sér nokkra drykki á barnum Pablo Discobar eftir móttökuna í höfuðstöðvum KSÍ sem fór fram eftir að liðið lenti í Keflavík. Það var ríkisstjórnin sem bauð til formlegrar móttöku þar sem landsliðið var boðið velkomið heim og þeim færðar þakkir og kveðjur.
Pablo Discobar var svo lokaður í gærkvöldi vegna einkasamkvæmis fyrir landsliðið, fjölskyldur og vini og var mikil stemning í hópnum. Sverrir Bergmann mætti með kassagítar og söng og spilaði fyrir hópinn og allir skemmtu sér konunglega. Meðal þeirra sem tóku lagið með Sverri voru Ragnar Sigurðsson, sem tilkynnti í gær að hann væri hættur í landsliðinu og einnig samfélagsmiðlastjarnan Rúrik Gíslason, sem sjálfur spilar á gítar í sínum frítíma.
Einnig voru á Pablo þau Rúnar Pálmarsson, Hörður Magnússon, Kári Árnason og Hjördís Perla Rafnsdóttir, Arnór Ingvi Traustason, Andrea Röfn Jónasdóttir, Ólafur Ingi Skúlason, Sigurbjörg Hjörleifsdóttir og margir fleiri.
