Guðni er jákvæður þegar hann er spurður hvort Ísland muni komast upp úr riðlinum.
„Því ekki það? Við sýndum það og sönnuðum í Frakklandi 2016 að okkur eru allir vegir færir og við biðjum ekki um mikið þannig lagað. Við biðjum um það að liðið leggi sig fram, sýni þá sameiningu, þá dirfsku, þá samheldni og það þolgæði sem einkenndi liðið og hefur einkennt liðið. Við erum í úrslitum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu vegna þess að við erum eitt af bestu knattspyrnuliðum í heimi. Af hverju ættum við að fara þangað og kvíða viðureignum framundan? Það er engin ástæða til þess.“
En gæti Guðni ekki skellt sér til Rússlands á eigin vegum? Sem almennur íþróttaáhugamaður?
„Það er þannig að stjórnvöld ásamt öðrum stjórnvöldum á öðrum Vesturlöndum gripu til ákveðinna aðgerða gegn Rússlandi. Þótt ég njóti ferðafrelsis þegar um íþróttaviðburði er að ræða, fer ég ekki að ganga gegn vilja ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis að gamni mínu, en við sjáum hvað setur,“ segir Guðni á léttum nótum.

Að lokum vildi Guðni koma þessum skilaboð til landliðsins:
„Mín skilaboð eru einföld, við stöndum með strákunum okkar og stelpunum okkar í íþróttum og annars staðar í mannlífinu þar sem Íslendingar gera það gott innanlands sem utan, við erum öll í sama liði. Við eigum að deila og rífast um hitt og þetta í samfélaginu. Það er einkenni af öflugu samfélagi að það séu deildar meiningar en svo er líka gott að hafa eitthvað sem sameinar okkur, og íþróttir geta gert það svo vel. Íþróttir eru frábær leið til þess að láta í ljós heilbrigða ætthjarðarást og ég hef fulla trú á því að ef þetta lið sýnir það sem það hefur sýnt hingað til, dugnað, dirfsku, samheldni og aga, þá er þessu liði allir vegir færir og við hlökkum til að fylgjast með hvar sem við verðum. Fyrsta leikinn mun ég horfa á Hrafnseyri fyrir vestan, næsta leikinn einhverstaðar í Eistlandi, í opinberri heimsókn þangað. Sama hvar maður er þá verður hugur manns með Íslandi og þeim sem keppa fyrir Íslands hönd.“

Kristbjörn og Grétar ætla að keyra frá Íslandi til Rússlands, heila 10 til 15 þúsund kílómetra. Spurðir að því hvernig væri að fá að hitta forsetann svöruðu þeir: „Eiginlega bara ævintýralegt, við erum uppi með okkur, hann var ótrúlega vinalegur, mjög gaman að hitta hann.“
Ekki margir myndu nenna að leggja það á sig að keyra í 10 daga til Rússlands, spurðir að því hvort það liggi eitthvað dýpra á bakvið þessa svaðilför sögðu þeir félagarnir að þetta byrjaði sem brandari sem varð síðan að góðri hugmynd.
„Það hjálpaði mikið að fólk hafði enga trú á þessu, það ýtti undir eldmóðinn,“ sögðu þeir Kristbjörn og Gréta svo að lokum.
Þeir munu deila reynslu sinni á bæði Instagram og Facebook, allt undir nafninu HMLadan. Einnig munu þeir taka upp heimildarmynd sem sýnd verður síðan einhverntímann eftir þetta ævintýri.