Erlent

Minnst 62 látnir eftir eldgos í Gvatemala

Sylvía Hall skrifar
Gosmökkurinn teygði sig í tíu kílómetra hæð og lagðist öskuský yfir höfuðborgina, sem er í 40 kílómetra fjarlægð.
Gosmökkurinn teygði sig í tíu kílómetra hæð og lagðist öskuský yfir höfuðborgina, sem er í 40 kílómetra fjarlægð. Vísir/AP
Hermenn aðstoða nú slökkviliðsmenn við leit að fólki eftir mannskætt eldgos í fjallinu Fuego í Gvatemala í nótt. Eldgosið er það öflugasta frá árinu 1974 og fjöldi látinna er nú 62, en sú tala gæti farið hækkandi. Þúsundir hafa leitað skjóls í neyðarskýlum og margra er enn saknað.

Fjallið er eitt það virkasta á Mið-Ameríku og er þetta annað eldgosið í fjallinu í ár. Fuego, sem þýðir „eldur“, er á úrkomumiklu svæði sem veldur því að mikið brak og úrgangur flæðir með hrauninu sem gerir það hættumeira en ella.

Sjá einnig:Hundruð saknað í Gvatemala

Frásagnir fólks á svæðinu eru átakanlegar, en margir sáu ættingja og ástvini sína grafast undir hraunið og sluppu margir með undraverðum hætti frá hamförunum. Hraunið flæddi hratt niður hlíðar fjallsins og hefur lagt þorp nærri fjallinu í rúst, en talið er að þetta gos sé það mannskæðasta frá árinu 1912.

Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í landinu í kjölfar hörmunganna og talið er að tala látinna og slasaðra muni hækka umtalsvert næstu daga.

Eldfjallasérfræðingar segja að allt bendi til þess að gosinu sé lokið, en gosmökkurinn náði upp í tíu kílómetra hæð og lagðist öskuský yfir höfuðborgina sem er í um 40 kílómetra fjarlægð frá eldfjallinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×