Innlent

Framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og vegfarendur beðnir að sýna aðgát

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Áætlað er að malbika um 10 prósent af gatnakerfi borgarinnar á þessu ári.
Áætlað er að malbika um 10 prósent af gatnakerfi borgarinnar á þessu ári. Reykjavíkurborg
Í dag, miðvikudaginn 6. júní verður unnið að því að malbika tvær akreinar á Reykjanesbraut, frá hringtorgi við Arnarnesveg í átt að Vífilsstöðum. Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir milli 08:00 og 20:00 samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Þessa dagana standa víða yfir framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu þar sem unnið er við að fræsa og malbika götur í umdæminu. Ef veður leyfir er einnig gert ráð fyrir að Ægisíða, á milli Hofsvallagötu og Starhaga, verði lokuð af þessum sökum frá klukkan níu og fram eftir degi.

Þá er ráðgert að þrengja að umferð við Grandatorg við enda Hringbrautar (norður) af svipuðum ástæðum og eins er áætluð viðgerðarvinna í framhaldinu á Hringbraut frá Meistaravöllum að Melatorgi. Í dag stendur líka til að malbika Seljabraut í Breiðholti.

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin sem eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum.

Það er eru framkvæmdir víðar en á höfuðborgarsvæðinu. Það verða til dæmis fræstar tvær akreinar á Innnesvegi á Akranesi, veginum verður lokað og hjáleiðir merktar. Búast má við lítils háttar umferðartöfum samkvæmt Vegagerðinni. Áætlað er að framkvæmdirnar standi yfir milli klukkan 09:00 og 17:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×