Hernandez hafði komið til Bandaríkjann frá Hondúras, þar sem hún er sögð hafa verið ofsótt vegna stöðu sinnar sem transkona. Eftir að til Bandaríkjanna var komið handtóku yfirvöld innflyjendamála Hernandez vegna glæpa sem hún hafði framið í Texas-ríki; svosem smáþjófnað, að hafa stundað vændi og að koma ólöglega til landsins.
Hernandez, sem var smituð af HIV, veiktist hins vegar í haldi yfirvalda og lést skömmu síðar. Hún er fimmti einstaklingurinn sem lætur lífið í haldi bandarísku útlendingastofnunarinnar á síðastliðnum átta mánuðum.
Hópur mannréttindasamtaka sendi frá sér yfirlýsingu vegna andláts hennar. Þar kemur meðal annars fram að Hernandez hafi eygt von í Bandaríkjunum, þar sem hún hafði hugsað sér að hefja nýtt líf - „frjáls undan oki misnotkunar, áhættu og hótana,“ eins og það er orðað á vef breska ríkisútvarpsins.
Mannréttindasamtökin segja að þrátt fyrir að bandarísk stjórnvöld hafi komið Hernandez undir læknishendur sé blóð hennar á þeirra höndum. „Með öðrum orðum, hún var myrt,“ segir í yfirlýsingu Pueblo Sin Fronteras, Al Otro Lado og Diversidad Sin Fronteras.
Talið er að í hópi þeirra 267 einstaklinga sem fylgdu Hernandez til Bandaríkjanna, til að sækja um hæli í Kaliforníu, hafi verið 23 trans-einstaklingar.