Erlent

Mannskaðinn á Púertó Ríkó margfalt meiri en opinberar tölur segja

Kjartan Kjartansson skrifar
Fellibylurinn María lék Púertó Ríkó grátt í september í fyrra og setur enn mark sitt á daglegt líf íbúa þar.
Fellibylurinn María lék Púertó Ríkó grátt í september í fyrra og setur enn mark sitt á daglegt líf íbúa þar. Vísir/EPA
Að minnsta kosti 4.645 manns létu lífið vegna fellibylsins Maríu sem gekk yfir Púertó Ríkó í fyrra samkvæmt nýrri rannsókn heilbrigðisvísindamanna. Opinberar tölur um mannskaðann segja hins vegar að aðeins 64 hafi farist af völdum fellibylsins.

Rannsóknin beindi sjónum að röskunum á heilbrigðisþjónustu og grunnþjónustu við aldraða og langveika á eyjunni eftir að María olli eyðileggingu þar í september. Rafmagn er ekki enn komið á sums staðar á eyjunni vegna skemmdanna sem urðu á raforkukerfinu. Washington Post segir að sumir bæir hafi verið algerlega einangraðir í nokkrar vikur eftir fellibylinn.

Heilbrigðisþjónusta á eyjunni var í lamasessi eftir Maríu. Olíuvaraaflstöðvar sáu þeim fyrir rafmagni en á sama tíma varð vart við olíuskort í landinu. Flytja þurfti alvarlega veika sjúklinga til meginlands Bandaríkjanna þar sem ekki var hægt að veita þeim þá meðferð sem þurftu á að halda á eyjunni.

„Niðurstöður okkar benda til þess að opinber tala látinna um 64 sé verulegt vanmat af raunverulegri byrði dauðsfalla eftir fellibylinn Maríu,“ segja höfundar rannsóknarinnar.

Opinberu tölurnar hafa enda sætt harðri gagnrýndi sérfræðinga og eyjaskeggja. Rannsakendurnir gagnrýna stjórnvöld á Púertó Ríkó fyrir hvernig þau töldu þá sem létust og tregðu til að deila upplýsingum. Það skaði áætlanagerð fyrir náttúruhamfarir í framtíðinni.

Tjónið af völdum Maríu er talið nema um níutíu milljörðum dollara. Það er það þriðja mesta á bandarísku landsvæði frá árinu 1900. Sjúkrahús þurfti að keyra á olíuvaraaflstöðvum

Íbúar Púertó Ríkó glíma enn við vatnsskort, óáreiðanlegt rafmagn og skort á grunnþjónustu þó að átta mánuðir séu liðnir frá hamförunum. Ríkisstjórn Donalds Trump forseta hefur verið gagnrýnd fyrir að taka neyðarástandið á Púertó Ríkó eftir fellibylinn ekki eins föstum tökum og eftir stóra fellibyli sem gengu yfir Texas og Flórída. Púertó Ríkó er bandarískt yfirráðasvæði. Trump gerði lítið til að breyta þeirri ásýnd þegar hann tísti um að íbúar eyjarinnar vildu fá allt upp í hendurnar og tengdi neyðaraðstoð við erfiða fjárhagsstöðu yfirvalda þar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×