Körfubolti

Celtics vann oddaleikinn og mætir 76ers | Meistararnir í ham

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Al Horford óskar Giannis Antetokounmpo góðs sumarfrís
Al Horford óskar Giannis Antetokounmpo góðs sumarfrís vísir/getty
Boston Celtics er komið í undanúrslit Austurdeildarinnar eftir hörkueinvígi gegn Milwaukee Bucks en úrslitin réðust í oddaleik í TD Garden í Boston í nótt. Boston sigrar einvígið 4-3 og mætir Philadelphia 76ers í undanúrslitum en 76ers vann öruggan 4-1 sigur í einvígi gegn Miami Heat.

Al Horford og Terry Rozier voru atkvæðamestir í sóknarleik Celtics í nótt þar sem Horford skoraði 26 stig, líkt og Rozier sem einnig gaf 9 stoðsendingar. Khris Middleton var stigahæstur í liði Bucks með 32 stig en gríska fríkið Giannis Antetokounmpo og félagar halda nú í sumarfrí.



Undanúrslitin í vestrinu hófust í nótt þegar ríkjandi meistarar Golden State Warriors fengu sjóðheitt lið New Orleans Pelicans í heimsókn. 

Meistararnir sýndu mátt sinn og unnu öruggan 22 stiga sigur þrátt fyrir að leika án sinnar skærustu stjörnu þar sem Steph Curry glímir við meiðsli. Klay Thompson var stigahæstur með 27 stig en Draymond Green átti sömuleiðis frábæran leik; skoraði 16 stig, tók 15 fráköst og gaf 11 stoðsendingar.



Úrslit næturinnar

Boston Celtics 112-96 Milwaukee Bucks (Celtics vinnur einvígið 4-3)

Golden State Warriors 123-101 New Orleans Pelicans (Warriors leiðir einvígið 1-0)

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×