Körfubolti

DeRozan í stuði fyrir Toronto: „Hann er ótrúlegur leikmaður en glataður vinur“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
DeMar DeRozan fór á kostum.
DeMar DeRozan fór á kostum. vísir/getty
Toronto Raptors komst í nótt í 2-0 í einvígi sínu gegn Washington Wizards í úrslitakeppni austurdeildarinnar í NBA með öðrum heimasigrinum í röð, 130-119. DeMar DeRozan fór á kostum fyrir heimamenn en hann skoraði 37 stig, tók fimm fráköst og gaf fjórar stoðsendingar en í heildina hitti hann úr fjórtán af 23 skotum sínum.

Kyle Lowry, sem skoraði þrettán stig, tók sjö fráköst og gaf tólf stoðsendingar í leiknum, hrósaði DeRozan í hástert á blaðamannafundi eftir leikinn en nýtti þó tækifærið til að stríða besta vini sínum aðeins.

„Hann er ótrúlegur leikmaður. Hann er á pari við þá bestu í deildinni. Hann er að vaxa sem leikmaður og hann verður alltaf betri. Hann er glataður vinur en sem körfuboltamaður er hann frábær,“ sagði Lowry léttur í lund.

Jaylen Brown skoraði 30 stig fyrir Boston sem komst í 2-0 á móti Milwaukee Bucks og Terry Rozier bætti við 23 stigum og fara Bucks-menn nú heim tveimur leikjum undir í einvíginu.

Það kom engum á óvart að gríska fríkið Giannis Antetokounmpo var stigahæstur gestanna með 30 stig en hann bætti við það níu fráköstum og átta stoðsendingum.

Í vestrinu komst New Orleans Pelicans svo í 2-0 á móti Portland Trail Blazers með 111-102 sigri á útivelli og fer í fínum málum í tveggja leikja ferð til Portland.

Jrue Holiday skoraði 33 stig fyrir New Orleans sem er að koma frekar mikið á óvart í ljósi þess að liðið er án miðherjans Boogie Cousins sem meiddist illa seint á leiktíðinni. Anthony DAvis skoraði 22 stig og tók þrettán fráköst í liði gestanna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×