Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt ráðgjöfum sínum að hann vilji draga bandaríska hermenn út úr Sýrlandi fyrr en áætlað var. Sú afstaða forsetans er sögð í andstöðu við mat stjórnenda Bandaríkjahers enda sé baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams hvergi nærri lokið.
Verulegur árangur hefur náðst í herferð Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra gegn Ríki íslams. Bandaríska varnarmálaráðuneytið segir að samtökin hafi misst um 98% af yfirráðasvæði sínu í Írak og Sýrlandi. Þrátt fyrir það óttast bandarískir herforingjar að vígamennirnir geti snúið vörn hratt í sókn ef stöðugleika verður ekki komið á fljótt á frelsuðum svæðum.
Trump hefur hins vegar ekki gefið mikið fyrir þær áhyggjur. Þannig frysti hann 200 milljón dollara framlag til uppbyggingar í Sýrlandi sem var ætlað að koma stöðugleika á eftir að hann las um það í fréttum. Rex Tillerson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti um framlagið í febrúar.
Reuters-fréttastofan segir að þjóðaröryggisráð Bandaríkjanna ætli að funda snemam í næstu viku um herferðina gegn Ríki íslams í Sýrlandi.
Á fundi með stuðningsmönnum sínum í Ohio á fimmtudag lýsti Trump því óvænt yfir að Bandaríkjamenn myndu brátt láta aðrar þjóðir um að axla ábyrgð á ástandi mála í Sýrlandi og hafa sig þaðan á brott.
„Við munum fara út úr Sýrlandi, þú veist, mjög fljótt. Látum aðra um að sjá um þetta núna. Mjög fljótt, mjög fljótt, förum við út,“ sagði forseti Bandaríkjanna.
Á sama tíma hafa frönsk stjórnvöld í hyggju að fjölga í herliði sínu í Sýrlandi til að styðja við baráttuna gegn Ríki íslams sem Bandaríkin hafa leitt fram að þessu og hefta sókn Tyrkja gegn Kúrdum.
