Sport

Till fær aðalbardagann í Liverpool og Gunnar Nelson er „meira en klár í slaginn“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnar Nelson gæti barist í Liverpool en ekki á móti Darren TIll.
Gunnar Nelson gæti barist í Liverpool en ekki á móti Darren TIll. vísir/getty
UFC tilkynnti síðastliðinn föstudag að Darren Till fær aðalbardagann í sinni heimaborg, Liverpool, þegar að UFC mætir þar til leiks með Fight Night-bardagakvöld 27. maí.

Till er maðurinn sem Gunnar Nelson hefur verið að kalla eftir því að berjast gegn en Englendingurinn hefur hálfpartinn verið á flótta undan Gunnari og þóttist veikur þegar að UFC vildi að þeir myndu mætast í Lundúnum í mars.

Shean Shelby, maðurinn sem raðar upp bardögum fyrir UFC, vildi ólmur fá Englendinginn í búrið á móti Gunnari en Till flaug í staðinn til Brasilíu og naut lífsins í „veikindunum“.

Gunnar hefur ekkert tjáð sig opinberlega síðan að staðfest var að Till verður aðalstjarna kvöldsins í Liverpool í lok maí en UFC á enn eftir að gefa út hverjum hann mætir.

Darren Till virðist ekki þora í Gunnar Nelson.vísir/getty

Vonast eftir Liverpool

„Gunnar er meira en klár í slaginn gegn Till í Liverpool ef honum verður boðið að berjast þar,“ segir Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars, í viðtali við MMANytt.com.

„Við vorum líka klárir í slaginn þegar að UFC hafði samband við okkur í janúar og vildi fá Gunnar í bardaga á móti Till í Lundúnum. Gunnar sagði já en herbúðir Till sögðu hann veikan mörgum vikum fyrir áætlaðan bardaga.“

Haraldur býst ekki heldur við því að Till berjist við Gunnar í Liverpool, en hann deilir frétt MMANytt á Facebook-síðu íslenskra áhugamanna um MMA og segir:

„Vonumst til að vera í Liverpool en það eru litlar líkur á að það verði gegn Till. Nokkuð ljóst að hann hefur takmarkaðan áhuga á að mæta Gunna þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.“

Leon Edwards, 26 ára gamall breskur bardagakappi, hefur verið á fínum skriði að undanförnu en hann vill einnig berjast við Till í Liverpool. Haraldur sér líka góðan bardaga í kortunum ef hann mætir Gunnari.

„Ég tel að bardagi milli Gunnars og Leon yrði flottur en það er bara mín persónulega skoðun. Ég hef aldrei rætt um hann við Gunnar,“ segir Haraldur Nelson.

MMA

Tengdar fréttir

Gunnar Nelson býst við bardaga í maí

Gunnar Nelson vonast eftir því að berjast í lok maí á bardagakvöldi UFC í Dublin. Þetta sagði hann í spjalli við The MacLife, síðu í eigu Conor McGregor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×