Fótbolti

Mario Kempes: Messi getur ekki spilað í marki, í vörn, á vængnum og skorað mörkin líka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Vísir/Getty
Argentínumenn fengu slæma útreið í gærkvöldi aðeins 78 dögum fyrir HM þegar liðið tapaði 6-1 fyrir Spáni. Liðið var án Messi en það skýrir samt ekki niðurlæginguna í gær.

Mario Kempes, markakóngur HM og heimsmeistari 1978, var fenginn til að segja sitt álit á frammistöðu liðsins í gær en hann skoraði tvö af sex mörkum sínum í keppninni fyrir 40 árum í 3-1 sigri á Hollandi í úrslitaleiknum.

„Ég var bjartsýnn eftir fyrri hálfleikinn því þeir voru ekki að spila illa. Seinni hálfleikurinn var aftur á móti stórslys. Í seinni hálfleiknum litu þeir út eins og ellefu menn sem þekktust ekki neitt,“ sagði Mario Kempes.





Gonzalo Higuaín klúðraði algjöru dauðafæri í leiknum en landsliðsþjálfarinn vill frekar nota hann en unga og ferska menn eins og þá Paulo Dybala og Mauro Icardi sem eru raða inn mörkum á Ítalíu.

„Færið sem Higuaín fékk í gær er færi sem hann skorar úr í 51 skipti af 50 þegar hann er í búningi Juventus. Ég veit ekki hvað gerist í framhaldinu með hann og argentínska landsliðið,“ sagði Mario Kempes.

Lionel Messi lék ekki með argentínska landsliðinu í gær vegna meiðsla.

„Messi getur gjörbreytt liði með því að koma inn á völlinn en hann getur ekki spilað í marki, í vörn, á vængnum og skorað mörkin líka. Það er bara einn Messi en fótbolti er spilaður með ellefu mönnum,“ sagði Kempes.

„Icardi er leikmaður sem getur nýst liðinu vel og ég veit ekki af hverju Sampaoli valdi habnn ekki. Hann lék ekki illa á móti Úrúgvæ,“ sagði Kempes en Mauro Icardi hefur raðað inn mörkum hjá Internazionale á Ítalíu.

„Þetta landslið okkar þarf nýtt blóð. Fyrir marga þessa leikmenn þá er þetta þeirra síðasta heimsmeistarakeppni. Við þurfum að fá nýja leikmenn inn,“ sagði Kempes.

„Í sambandi við marga af þessum leikmönnum sem eru í byrunarliðinu þá þarf nauðsynlega hrista þá aðeins til svo þeir sofni ekki,“ sagði Kempes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×