Bólivíumenn hafa gripið til þess ráðs að leggja 200 kílómetra langan fána meðfram hraðbraut í landinu til þess að vekja athygli á landsvæðadeilu sem ríkið hefur átt í gegn Síle. Reuters greinir frá.
Deilan snýst um strandsvæði sem nú tilheyrir Síle en Bóliviumenn telja sig hafa tilkall til. Bólivía, sem er landlukt ríki, tapaði landsvæðum sem lágu að Kyrrahafinu í stríði gegn Síle seint á nítjándu öld. Bólivía vill nú aftur fá aðgang að Kyrrahafinu til þess að geta aukið útflutning sinn á jarðgasi og steinefnum.
Réttarhöld vegna málsins munu fara fram í Alþjóðadómstólnum í Haag síðar í mánuðinum.
Fáninn sem lagður var á götuna er skærblár og táknar hafið, sem Bólivíumenn sjá í hillingum.
Bólivíumenn flíka flennistórum fána í landsvæðadeilu
Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
