Sænsk yfirvöld koma nú að samningaviðræðum þess efnis að þremur bandarískum ríkisborgurum verði sleppt úr haldi í Norður-Kóreu. Utanríkisráðherra Norður-Kóreu var staddur í Stokkhólmi um helgina.
Ri Young Ho hefur undanfarna daga fundað með sænskum kollega sínum, utanríkisráðherranum Margot Wallström. Í frétt á vef sænska utanríkisráðuneytisins segir að viðræður ráðherranna tveggja hafi að mestu snúist um stöðu mála á Kóreu-skaganum.
CNN hefur hins vegareftir heimildarmönnum sínum að Svíar hafi þrýst mjög á að lausn myndi finnast í málum fanganna þriggja á fundum ráðheranna tveggja.
Tveir þeirra voru fangelsaðir á síðasta ári, en sá þriðji árið 2015. Tveir þeirra störfuðu við háskólann í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, og voru þeir handteknir fyrir fjandsamlegar gjörðir í garð Norður-Kóreu, sá þriðji var handtekinn fyrir njósnir.
Málið hefur að sögn heimildarmanna CNN verið rætt síðustu mánuði á fundum embættismanna ríkjanna tveggja, en bandarísk yfirvöld eru sögð leggja mikla áherslu á að þremenningarnir losni úr haldi.
Svíar hafa undanfarna áratugi starfað sem milliliðir í samskiptum annarra vestrænna ríkja við Norður-Kóreu, en Svíar hafa starfrækt sendiráð í höfuðborg Norður-Kóreu, lengst allra vestrænna ríkja.

