Fótbolti

Heimir Hallgríms einn af tíu HM-þjálfurum sem mættu til Sotsjí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson sést meðal fulltrúa hinna 32 HM-þjóðanna í vinnustofunni í Sotsjí.
Heimir Hallgrímsson sést meðal fulltrúa hinna 32 HM-þjóðanna í vinnustofunni í Sotsjí. Vísir/Getty
Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, er einn af tíu aðalþjálfurum þjóðanna á HM í sumar sem mættu í sérstaka HM vinnustofu sem fór fram í Sotsjí undanfarna tvo daga.

250 aðilar úr starfsliði þjóðanna 32 mættu til Sotsjí en þetta var síðasta tækifæri þeirra til að fá að skygnast bak við tjöldin í skipulagi heimsmeistarakeppninnar. Allar þátttökuþjóðir sendu sína fulltúa en aðeins níu aðrir aðalþjálfarar voru á staðnum.

Aðeins 5 af 32 þjóðum voru með í Álfukeppninni í fyrrasumar, Þýskaland, Portúgal, Ástralía, Mexíkó og Rússar, og var þetta því kjörið tækifæri fyrir hinar þjóðirnar að kynna sér aðstæður.





Til Sotsjí voru mættir þjálfarar, aðstoðarþjálfarar, læknar, tækniráðgjafar, fjölmiðlafulltrúar, liðsstjórar, öryggisverðir, fararstjórar og markaðsfulltrúar eða allir sem mögulega koma að veru liðanna á HM í sumar.

Heimir var ekki einn í för því með honum voru líka aðstoðarþjálfari hans Helgi Kolviðsson og Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ svo einhver séu nefnd.

Hér fyrir neðan má sjá stutt myndbrot frá vinnustofunni og þar má sjá Heimi og aðra fulltrúa Íslands.





Heimir og félagar fengu þarna tækifæri til að skoða aðstæður í búðum íslenska landsliðsins á HM í sumar. Íslenska landsliðið mun vera með höfuðstöðvar sínar í borginni Gelendzhik á milli leikja á HM en hún er ekki langt norður af Sotsjí.

Nokkrar HM-hetjur voru meðal gesta í vinnustofunni en þar má nefna Jorge Burruchaga, sem tryggði Argentínumönnum heimsmeistaratitilinn 1986 og Spánverjinn Fernando Hierro. Báðir eru þeir í störfum á vegum sinna knattspyrnusambanda.

Heimir er ekki í fyrstu ferðinni sinni til Rússlands á síðustu mánuðum því hann mætti einnig á HM-dráttinn í Mosvku í desember. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×