Viðskipti innlent

Mjólkursamsalan er ekki að fara að loka Búðardal

Kristján Már Unnarsson skrifar
Mjólkursamsalan í Búðardal er stærsta atvinnufyrirtæki Dalabyggðar.
Mjólkursamsalan í Búðardal er stærsta atvinnufyrirtæki Dalabyggðar. vísir/Pjetur
„Nei, alls ekki,“ svarar stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar, Egill Sigurðsson, spurningu um hvort til standi að loka starfsstöð fyrirtækisins í Búðardal. Orðrómur þess efnis hefur gengið meðal Dalamanna að undanförnu.

Egill Sigurðsson, formaður stjórnar MS.vísir/auðunn
„Þetta er sérhæfð ostagerð þar sem Dalaostar eru framleiddir. Þeir eru hvergi framleiddir annarsstaðar á landinu. Það kemur ekki til greina að loka henni. Dalamenn geta verið rólegir með það,“ segir Egill, sem sjálfur er bóndi á Berustöðum í Ásahreppi í Rangárvallasýslu.

MS í Búðardal er stærsta atvinnufyrirtæki Dalasýslu. Á heimasíðu Mjólkusamsölunnar segir að MS Búðardal taki á móti mjólk frá bændum í Dalasýslu og á Vestfjörðum. Starfsmenn eru samtals 22.

„Ostar eru mikilvægur hluti af menningarsögu Dalanna en fyrsti mygluosturinn á Íslandi var framleiddur í Ólafsdal árið 1915. Mikil hefð hefur skapast fyrir ostagerð og segja má að Dalirnir séu ostahérað Íslands,“ segir á Dalaostar.is. 

„Þrátt fyrir að vera hvorki stærsta né fjölmennasta hérað landsins hafa Dalirnir skipt miklu máli í sögu Íslands, allt frá landnemum og Sturlungasögu yfir í ostagerð,“ segir ennfremur.

Frá Búðardal. Í þessum eina þéttbýliskjarna Dalabyggðar búa 260 manns af 670 íbúum sveitarfélagsins.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Tengdar fréttir

Staðan svo alvarleg að bændur eru kjaftstopp

Formaður Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu segir stefna í gjaldþrotahrinu og byggðahrun og óttast að upplausn í stjórnmálum komi í veg fyrir aðgerðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×