Viðskipti erlent

Stjörnukokkur í skuldasúpu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jamie Oliver er heimsþekktur sjónvarpskokkur.
Jamie Oliver er heimsþekktur sjónvarpskokkur.
Tveir af nafntoguðustu veitingastöðum stjörnukokksins Jamie Oliver í Lundúnum hafa verið teknir til gjaldþrotaskipta. Rekstur veitingastaða hans hefur gengið brösulega í Bretlandi síðustu misseri og hefur sjónvarpskokkurinn lokað um helmingi veitingahúsa sinna á einu ári.

Barbecoa-steikhúsið, sem staðsett er við Picadilly og í eigu Oliver, er annað þeirra sem loka mun á næstunni. Aðeins um eitt ár er síðan að það var opnað aftur eftir endurbætur.

Breska ríkisútvarpið heldur því þó fram að Jamie Oliver hafi keypt hitt Barbecoa-veitingahúsið, sem stendur skammt frá St. Pauls og stóð til að loka, um leið og það var tekið til gjaldþrotaskipta. Það á stjörnukokkurinn að hafa gert í gegnum dótturfélag fyrir ótilgreinda upphæð.

Nýjustu fréttirnar af gjaldþrotaskiptum fylgja í kjölfar fregna af lokunum fleiri veitingastaða Jamie Oliver í Bretlandi á síðustu misserum. Í upphafi síðasta árs tilkynnti hann til að mynda að hann ætlaði sér að loka sex veitingastöðum í landinu vegna slæms gengis og óvissu vegna væntanlegrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Hann bætti um betur í upphafi þessa árs og tilkynnti lokun 12 veitingastaða til viðbótar. Áður hafði hann rekið 37 matsölustaði í Bretlandi. Talið er að rúmlega 200 manns muni missa vinnuna vegna þessa.

Hann opnaði þrátt fyrir það útibú á Íslandi á síðasta ári.

Rekstur veitingastaða Jamie Oliver í Bretlandi er stórskuldugur en talið að móðurfélagið skuldi margvíslegum lánadrottnum rúmlega 71 milljón punda, næstum 10 milljarðar íslenskra króna.


Tengdar fréttir

Jamie Oliver vill halda því upprunalega á Hótel Borg

Við framkvæmdir á Jamie's Italian veitingastaðnum á Hótel Borg fundust gömul málverk sem máluð voru beint á steypuna. Eigendur vilja vernda verkið sem er mjög skemmt og tekur kokkurinn í sama streng.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×