Körfubolti

Það er tapaður bolti í NBA ef þú gefur mömmu liðsfélaga fimmu á hliðarlínunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Paul og James Harden.
Chris Paul og James Harden. Vísir/Getty
Chris Paul tapar vanalega ekki mörgum boltum í NBA-deildinni og er vanalega meðal þeirra leikstjórnanda sem passa hvað best upp á boltann.

Paul náði því einu sinni að gefa 20 stoðsendingar í einum leik á síðasta tímabili án þess að tapa einum einasta bolta. Þá lék Chris Paul með Los Angeles Clippers en núna er hann í besta liði NBA-deildarinnar.

Chris Paul og félagar í Houston Rockets unnu sinn þrettánda leik í röð á móti Utah Jazz í nótt og Chris Paul var með 15 stig, 7 stoðsendingar og 2 tapaða bolta.

Hann var hinsvegar bara með einn tapaðan bolta þegar aðeins tólf sekúndur voru eftir af leiknum og sigurinn var í höfn.

Chris Paul var þá með boltann og ákvað að gefa Monja Willis, móður James Harden, fimmu á sama tíma og hann hélt á boltanum.  Monja Willis sat á gólfinu við hliðarlínuna en stóð upp og bað um fimmu frá Paul sem varð við þeirri ósk.

Dómari leiksins gaf þeim engin grið og dæmdi um leið boltann af Chris Paul. Leikstjórnandi Houston Rockets fór ekki útaf vellinum sjálfur en telst hafa gert það um leið og hann snerti móður Harden sem var utan vallar.

Það má sjá þetta hér fyrir neðan. Þetta var hárréttur dómur en fyndið atvik engu að síður. 





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×